banner
   mið 03. mars 2021 19:56
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
England: Jafnt á Turf Moor - Villa saknar Grealish
Úr leik Burnley og Leicester.
Úr leik Burnley og Leicester.
Mynd: Getty Images
Aston Villa saknar Grealish.
Aston Villa saknar Grealish.
Mynd: Getty Images
Það voru tveir leikir að klárast í ensku úrvalsdeildinni og má segja að þeir hafi báðir endað með nokkuð óvæntum úrslitum þegar litið er á stigatöfluna. Ekki kannski þegar litið er á meiðslalistana.

Burnley tók á móti Leicester City á Turf Moor. Jóhann Berg Guðmundsson var ekki með Burnley í leiknum vegna meiðsla. Hjá Leicester vantaði átta leikmenn vegna meiðsla; Wesley Fofana, Ayoze Perez, Jonny Evans, James Maddison, Dennis Praet, Harvey Barnes, Wes Morgan og James Justin.

Leicester saknaði þessara leikmanna mjög í kvöld þar sem niðurstaðan gegn Burnley var 1-1 jafntefli. Burnley tók forystuna í leiknum þar sem Matej Vydra skoraði á fjórðu mínútu. Kelechi Iheanacho jafnaði hálftíma síðar og þar við sat.

Þetta var hörkuleikur og hefðu bæði lið getað stolið sigrinum. Kasper Schmeichel átti mjög góðan leik í marki Leicester, sem er í þriðja sæti deildarinnar. Burnley 15. sæti, sex stigum frá fallsvæðinu.

Aston Villa saknar Grealish
Í hinum leiknum sem var að klárast vann botnlið Sheffield United sigur á Aston Villa.

David McGoldrick skoraði fyrsta mark leiksins eftir hálftíma leik og reyndist það eina mark leiksins, jafnvel þó svo að Phil Jagielka, varnarmaður Sheffield United, hafi fengið að líta rauða spjaldið snemma í seinni hálfleiknum.

Það vantaði Jack Grealish í lið Aston Villa í dag en hann er enn frá vegna meiðsla. Það er augljóst að liðið saknar sköpunargáfu hans og gæða fram á við.

Sheffield United er áfram á botni deildarinnar en núna með 14 stig, tólf stigum frá öruggu sæti. Aston Villa er í níunda sæti.

Burnley 1 - 1 Leicester City
1-0 Matej Vydra ('4 )
1-1 Kelechi Iheanacho ('34 )

Sheffield Utd 1 - 0 Aston Villa
1-0 David McGoldrick ('30 )
Rautt spjald: Phil Jagielka, Sheffield Utd ('57)

Klukkan 20:15 hefst leikur Crystal Palace og Manchester United. Smelltu hér til að sjá byrjunarliðin.
Athugasemdir
banner