Erik ten Hag var snöggur í svörum eftir tapleik Manchester United á heimavelli gegn Galatasaray í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í kvöld.
Rasmus Höjlund tók forystuna fyrir Rauðu djöflana í tvígang en Galatasaray svaraði fyrir sig og vann að lokum viðureignina.
„Við erum að gera alltof einföld mistök sem ættu ekki að sjást í þessum gæðaflokki," sagði Ten Hag eftir tapið. „Við gerðum mistök og þeir refsuðu okkur. Það er erfitt að hafa stjórn á svona aðstæðum þegar einstaklingsmistök gera herslumuninn.
„Við erum allir saman í þessu og þurfum að gera betur í sameiningu. Við náðum forystunni tvisvar í kvöld en misstum hana niður. Við verðum að gera betur.
„Rasmus skoraði tvö frábær mörk en það nægði ekki til að sigra leikinn. Hann getur verið sáttur með mörkin sín."
Ten Hag var að lokum spurður út í atvik sem átti sér stað þegar Marcus Rashford var í dauðafæri en ákvað að senda boltann á samherja frekar en að skjóta, og fór færið forgörðum.
„Þetta er ákvörðun sem Marcus þarf að taka sjálfur, hann er að spila leikinn. Á svona stundu þarf að taka ákvörðun og hann gerði það."
Athugasemdir