Það er langt síðan Manchester City hefur verið í jafn miklum vandræðum og það er núna en liðið hefur tapað fjórum deildarleikjum í röð.
Liðið hefur unnið deildina sex af síðustu sjö ár. Kyle Walker, fyrirliði liðsins, sendi stuðningsmönnum skilaboð og fullvissaði þá um að liðið myndi sýna sínar réttu hliðar.
„Við vitum að frammistaðan okkar undanfarið hefur ekki verið góð og við vitum að þetta hefur verið erfitt. Við höfum tekist á við þessa áskorun áður, saman, og við munum komast í gegnum þessa líka," sagði Walker.
„Það er mikilvægt að allir standi saman. Ykkar stuðningur, hvort sem það er á góðum eða slæmum tímum skiptir okkur öllu máli. Við höfum unnið titla í síðustu umferðinni og við höfum skrifað söguna með því að vinna með 100 stig. Við höfum sýnt það aftur og aftur að við getum tekist á við áskoranir og við munum gera það aftur, ég lofa því, við munum berjast allt til enda."