Fram tapaði 2-3 fyrir toppliði Víkings R. í lokaumferð fyrir tvískiptingu Bestu deildar karla.
Viktor Bjarki Daðason kom inn sem varamaður í leiknum og varð um leið yngsti leikmaður meistaraflokks Fram frá upphafi, en hann er fæddur árið 2008 og er aðeins 15 ára og 65 daga gamall.
Viktor Bjarki bætir 30 ára gamalt met Þorbjörns Atla Sveinssonar sem var um 200 dögum eldri þegar hann spilað sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Fram árið 1993.
Viktor er á yngra ári í 3. flokki en hefur verið að spila uppfyrir sig með 2. flokki og staðið sig gríðarlega vel. Hann er bráðefnilegur ungur fótboltamaður með tvö mörk í fimm leikjum fyrir U15 ára landslið Íslands.
„Það verður spennandi að fylgjast með þessum efnilega leikmanni okkar Framara í framtíðinni," segir meðal annars í tilkynningu frá Fram.
Fram er í bullandi fallbaráttu fyrir lokahnykk deildartímabilsins í Bestu deildinni í haust. Framarar eiga fimm úrslitaleiki framundan í úrslitakeppni neðri hluta deildarinnar og þurfa að standa sig vel til að bjarga sér frá falli aftur niður í Lengjudeildina.

L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 |