Eddie Howe þjálfari Newcastle var mjög ánægður með sína menn eftir 2-0 sigur á heimavelli gegn Arsenal í undanúrslitum enska deildabikarsins í kvöld.
Newcastle var sterkari aðilinn og vann sannfærandi sigur eftir að hafa einnig sigrað fyrri leik liðanna á Emirates.
„Okkur fannst við þurfa að gera breytingar á liðinu frá helginni, við vildum meira öryggi í vörnina og meiri hæð í liðið og þess vegna gerðum við nokkrar breytingar," sagði Howe sem skipti þremur leikmönnum út eftir 1-2 tap á heimavelli gegn Fulham um helgina.
„Breytingarnar skiluðu árangri í dag og eiga strákarnir hrós skilið fyrir sína frammistöðu. Þeir fylgdu taktísku skipulagi fullkomlega eftir og það skilaði þessum frábæra sigri."
Þetta er annar úrslitaleikurinn sem Newcastle spilar á þremur árum í deildabikarnum eftir að hafa tapað gegn Manchester United á Wembley í febrúar 2023.
„Við erum mjög ánægðir með að spila annan úrslitaleik á Wembley, það er mikilvægt fyrir okkur sem félag að vera að keppast um titla. Það kom á óvart þegar við komumst í úrslitaleikinn fyrir tveimur árum. Núna kemur það minna á óvart og markmiðið okkar er að gera þetta að venjunni.
„Við erum búnir að eiga frábært mót hingað til og verðskuldum að spila úrslitaleikinn. Þetta er frábært tækifæri til að hampa bikar. Vonandi höfum við lært af tapleiknum fyrir tveimur árum."
Athugasemdir