Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   fös 05. ágúst 2022 21:14
Brynjar Ingi Erluson
Besta deild kvenna: Breiðablik ekki í vandræðum með Keflavík
Verðskuldaður sigur hjá Blikum í dag
Verðskuldaður sigur hjá Blikum í dag
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik 3 - 0 Keflavík
1-0 Clara Sigurðardóttir ('45 )
2-0 Birta Georgsdóttir ('54 )
3-0 Agla María Albertsdóttir ('61 )
Lestu um leikinn

Breiðablik vann nokkuð þægilegan, 3-0, sigur á Keflavík í Bestu deild kvenna á Kópavogsvelli í kvöld.

Blikar ætluðu sér öll stigin í dag og var það ljóst frá fyrstu mínútu leiksins. Eftir ellefu mínútna leik kom Natasha Moraa Anasi boltanum í netið en markið dæmt af.

Keflvíkingar gerðu vel í að verjast marktilraunum Blika sem þurftu þolinmæði til að komast yfir þessa hindrun. Sú þolinmæði skilaði sér því undir lok fyrri hálfleiksins skoraði Clara Sigurðardóttir.

Birta Georgsdóttir, sem var gríðarlega hættuleg hægra megin í sóknarlínunni, keyrði inn að teignum og kom boltanum fyrir markið og þar var Clara mætt til að afgreiða boltann í netið.

Blikar gerðu út um leikinn á sjö mínútna kafla í síðari hálfleik. Birta gerði annað markið á 54. mínútu. Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir átti laglega fyrirgjöf beint á kollinn á Birtu sem stangaði boltann framhjá Samönthu í marki Keflavíkur.

Agla María Albertsdóttir var svo næst í röðinni. Hún fékk boltann vinstra megin, lagði hann fyrir sig og skilaði honum í netið.

Blikar hefðu auðveldlega getað bætt við fleiri mörkum í leiknum en Samantha gerði vel í marki gestanna. Lokatölur 3-0 fyrir Breiðabliki sem er í 2. sæti með 27 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Vals, á meðan Keflavík er með 10 stig í 7. sæti.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner