Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   mið 08. mars 2023 09:00
Ívan Guðjón Baldursson
Son: Kjörið tækifæri til að snúa tímabilinu við
Mynd: EPA

Son Heung-min, framherji Tottenham, er svekktur með neikvæð úrslit sem liðið hefur verið að fá úr undanförnum leikjum og ítrekar mikilvægi leiks liðsins í kvöld gegn AC Milan.


Tottenham tekur á móti Ítalíumeisturum Milan eftir að hafa tapað fyrri leiknum 1-0 á útivelli. Son telur þetta vera mikilvægasta leik tímabilsins.

„Við verðum að snúa þessu við, þetta er mikilvægasti leikur tímabilsins hingað til. Við erum fullir tilhlökkunar, við erum tilbúnir til að skína undir flóðljósunum á Tottenham Hotspur Stadium," sagði Son.

„Við vitum að við verðum að leggja allt í sölurnar til að gera stuðningsmenn, félagið og okkur sjálfa stolta."

Tottenham vann heimaleiki gegn West Ham og Chelsea 2-0 eftir tapið í Mílanó, en í kjölfarið tapaði Spurs óvænt tvisvar sinnum á útivelli, í bæði skiptin 1-0. Liðið hefur því tapað síðustu tveimur leikjum sínum í röð og var fyrra tapið sérlega neyðarlegt. Þar var Tottenham slegið úr leik í FA bikarnum á útivelli gegn Sheffield United.

„Það var mjög sársaukafullt að detta úr bikarnum í síðustu viku en við erum ennþá í Meistaradeildinni og að berjast um topp fjóra í úrvalsdeildinni og við þurfum að einbeita okkur að því. Alla fótboltamenn dreymir um að spila í Meistaradeildinni.

„Þetta er kjörið tækifæri fyrir okkur til að snúa tímabilinu við. Ef við vinnum þennan leik getum við enn bjargað tímabilinu í tæka tíð."

Son var að lokum spurður út í endurkomu Antonio Conte eftir gallböðruaðgerð.

„Hann er kominn aftur með sína góðu orku. Starfsteymið sinnti öllu vel þegar Conte var fjarverandi en það er augljóslega öðruvísi að hafa hann á svæðinu í persónu."


Athugasemdir
banner
banner
banner