Sane, Bruno og Zubimendi orðaðir við Arsenal - Útsendarar Liverpool fylgjast með Hato - Tilboði Man Utd í De Jong var hafnað
   mán 10. febrúar 2025 21:54
Ívan Guðjón Baldursson
Ítalía: Inter hefndi sín á Fiorentina - Kristófer í sigurliði
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: Triestina
Inter 2 - 1 Fiorentina
1-0 Marin Pongracic ('28, sjálfsmark)
1-1 Rolando Mandragora ('44, víti)
2-1 Marko Arnautovic ('52)

Inter tók á móti Fiorentina í eina leik kvöldsins í ítalska boltanum, aðeins fjórum sólarhringum eftir að liðin mættust í frestuðum leik í Flórens.

Fiorentina sigraði heimaleikinn þægilega 3-0 en Inter tókst að hefna sín í kvöld. Heimamenn tóku forystuna þegar Marin Pongracic skallaði boltann óvart í eigið net á 28. mínútu, en Rolando Mandragora jafnaði með marki úr vítaspyrnu skömmu fyrir leikhlé.

Vítaspyrnudómurinn var afar umdeildur eftir að boltinn fór í höndina á Matteo Darmian innan vítateigs og nýtti Mandragora tækifærið til að jafna metin.

Inter hafði verið sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en liðin gengu til búningsklefa í stöðunni 1-1 og tók Marko Arnautovic forystuna fyrir Inter með skalla í upphafi síðari hálfleiks. Arnautovic var ekki í byrjunarliði Inter en hann kom inn fyrir Marcus Thuram sem meiddist í fyrri hálfleik.

Arnautovic reis langhæst í vítateignum til að skalla laglega fyrirgjöf frá Carlos Augusto í netið.

Inter var áfram sterkari aðilinn í síðari hálfleik og gaf lítið af færum á sér. Albert Guðmundsson fékk að spreyta sig á lokakaflanum í tilraun til að breyta gangi mála fyrir Fiorentina, en honum tókst ekki að hafa áhrif á leikinn.

Lokatölur urðu því 2-1 fyrir Inter sem er í öðru sæti Serie A, einu stigi á eftir toppliði Napoli.

Fiorentina er áfram í sjötta sæti, þremur stigum frá Meistaradeildarsætinu eftirsótta.

Þess má geta að miðjumaðurinn Kristófer Jónsson kom inn af bekknum og fékk að spila síðasta hálftímann í 1-0 sigri Triestina gegn Trento í Serie C.

Þetta er afar dýrmætur sigur fyrir Triestina sem er í harðri fallbaráttu og var þetta annar sigur liðsins í röð.

Artur Ionita, fyrrum leikmaður Verona, Cagliari og Benevento í Serie A, skoraði eina mark leiksins.

Triestina 1 - 0 Trento
1-0 Artur Ionita ('59)
Athugasemdir
banner
banner
banner