Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
   fös 10. maí 2024 21:55
Brynjar Ingi Erluson
Como spilar í Seríu A á næsta tímabili - Fyrsta sinn síðan 2003
Mynd: Getty Images
Ítalska félagið Como er komið aftur upp í Seríu A eftir 21 árs fjarveru eftir að liðið tryggði 2. sæti B-deildarinnar í kvöld.

Como er ekki bara staður þar sem ríka og fræga fólkið getur verið í ró og næði því nú er heldur betur búið að virkja fótboltann upp í topp.

Síðustu ár hefur liðið bara verið á róli á milli deilda en árið 2019 keypti fjárfestingafélagið Djarum Group klúbbinn. Dennis Wise, fyrrum leikmaður Chelsea, var ráðinn framkvæmdastjóri og þá komu þekkt nöfn inn til að fjárfesta í liðinu eins og Thierry Henry, sem situr í stjórn.

Cesc Fabregas var fenginn fyrir tveimur árum þá sem leikmaður en hann tók eitt tímabil áður en hann lagði skóna á hilluna. Hann tók síðan við U19 ára liðinu og hefur starfað sem aðstoðarþjálfari aðalliðsins á þessari leiktíð.

Félagið hefur auðvitað haft mikið fjármagn til að fá betri leikmenn og hjálpaði það til við að koma því aftur upp í efstu deild eftir 21 árs fjarveru.

Það var staðfest í kvöld er liðið gerði 1-1 jafntefli við Cosenza í lokaumferðinni.

Besti árangur Como í efstu deild er 6. sæti en það var árið 1950, síðan þá hefur liðið nokkrum sinnum orðið gjaldþrota, en er nú komið í góðar hendur og verður gaman að fylgjast með ævintýri þeirra á næstu leiktíð.

Það ætti ekki að vera vandamál að finna góða leikmenn til að ganga í raðir félagsins enda eru fá svæði í Evrópu fallegri en Como.

Félagið er reiðubúið að greiða vegleg laun en það er með leikmenn á borð við Simone Verdi, Patrick Cutrone og Daniele Baseilli á snærum sínum, allt leikmenn með mikla reynslu úr efstu deild.
Athugasemdir
banner
banner