lau 10. september 2022 23:55
Brynjar Ingi Erluson
Þjálfari Bodö/Glimt á lista hjá Brighton
Kjetil Knutsen gæti tekið við Brighton
Kjetil Knutsen gæti tekið við Brighton
Mynd: EPA
Kjetil Knutsen, þjálfari Bodö/Glimt í Noregi, er á lista hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Brighton en þetta kemur fram í frétt Telegraph í dag.

Graham Potter hætti með Brighton á dögunum og tók við Chelsea en félagið þurfti að greiða Brighton 16 milljónir punda til að losa hann undan samningi.

Brighton vill halda í sömu hugmyndafræði og skoðar nú tvo stjóra til að taka við keflinu af Potter.

Knutsen, sem hefur þjálfað Bodö/Glimt síðustu fjögur ár, er á listanum.

Hann hefur gjörbreytt hugmyndafræði Bodö/Glimt. Þegar hann tók við liðinu hafði það hafnað í 11. sæti norsku úrvalsdeildarinnar en lenti svo í 2. sæti á fyrsta tímabili hans.

Knutsen hefur gert liðið að meisturum tvö ár í röð og þá náði það frábærum árangri í Sambandsdeild Evrópu á síðustu leiktíð.

Ítalski þjálfarinn Roberto De Zerbi er hinn maðurinn á listanum en hann er án félags eftir að hann yfirgaf Shakhtar Donetsk í sumar vegna innrásar Rússa inn í Úkraínu.

De Zerbi þjálfaði áður Sassuolo, Benevento, Palermo og Foggia á Ítalíu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner