Fótbolti.net ræddi við Ómar Inga Guðmundsson, þjálfara HK, í dag og fór yfir stöðu mála hjá félaginu. HK var spáð neðsta sæti í ótímabæru spánni á dögunum.
Hvað er að frétta af leikmannamálum HK?
Hvað er að frétta af leikmannamálum HK?
„Ég held það segi sig alveg sjálft að við erum með augun opin fyrir ákveðnum stöðum. Ef þú horfir yfir liðið okkar núna þá myndi ég segja þá eru tveir heilir og tveir hálfir farnir frá liðinu sem voru í hlutverki. Ahmad Faqa og Örvar Eggertsson spiluðu allflesta leiki liðsins á síðasta tímabili og svo var kannski Hassan Jalloh í 50% hlutverki og svo er hlutverkið sem Anton skilur eftir sig. Það er mínútulega séð svipað og það sem Hassan skilaði," sagði Ómar.
„Það hefur aðeins fækkað í hópnum og ekkert leyndarmál að við erum að líta aðeins í kringum okkur eftir leikmönnum. Við þurfum bara að vanda okkur. Ég tel okkur hafa gert það í fyrra og á miðju sumri. Við bættum ekki miklu við okkur í fyrra en fannst það heppnast vel. Við eigum hreinlega ekki efni á því að skjóta mikið framhjá á leikmannamarkaðnum, né heldur að fylla hópinn af einhverjum mönnum sem eru ekki byrjunarliðsmenn."
„Við erum með stráka sem voru annað hvort að ganga upp eða eru ennþá í 2. flokki. Ísak (Aron Ómarsson), Kristján (Snær Frostason), Kalli (Karl Ágúst Karlsson), Birnir (Breki Burknason) og Tumi (Þorvarsson) og fleiri strákar... félagið verður að standa fyrir það að þeir fái tækifæri til að taka stærra hlutverk."
„Við þurfum að reyna velja gæði fram yfir magn í okkar styrkingum og vinna mikla vinnu í því hvaða leikmenn við tökum. Við getum ekki farið í lottó, þurfum að koma eins mikið í veg fyrir það og hægt er að ef við tökum erlendan leikmann að það sé hægt að flokka það sem eitthvað útlendingalottó."
Menn hjá AIK ánægðir með Faqa
Faqa var á láni hjá HK frá sænska félaginu AIK á síðasta tímabili. Eru einhverjar líkur á því að hann komi aftur?
„Ég var í samskiptum við íþróttastjórann hjá AIK síðast á mánudaginn og hann sagði að þeir væru mjög ánægðir með hans stöðu innan aðalliðshópsins eftir að hann kom til baka. AIK er á leið í tveggja vikna æfingaferð núna sem hann fer með í. Eins og staðan er núna þá sjá þeir ekki fyrir sér að það sé rými til að hleypa honum frá hópnum. Við eigum í góðu samtali bæði ég og Faqa og ég og klúbburinn. Það verður að koma í ljós. Ég vona að þessi dvöl hans hjá okkur hafi gert það að verkum að hann sé kominn nær liðinu heldur en hann var og þeir bjuggust við af því það getur kannski búið til gott samband við félagið."
„Það sé spennandi kostur við hliðina á því að fara í akademíu erlendis"
Eru einhverjar líkur á því að einhver ungur og efnilegur leikmaður hjá ykkur fari erlendis í vetur?
„Það eru alltaf einhverjar líkur. Kristján og Kalli hafa verið í kringum landsliðin sem er kannski helsti faktorinn í því að menn komist út. Við erum líka að reyna búa þannig um að þeir geti tekið sér hlutverk í liðinu og að það standi fyrir þeim að ef tækifærið á því að fara út býðst, þá þurfi þeir virkilega að velta því fyrir sér því þeir sjái möguleikann á því að vera í hlutverki í liði í efstu deild. Ég held að það sé spennandi kostur við hliðina á því að fara í akademíu erlendis."
Rólegur yfir spánni
Kom þér á óvart að ykkur var spáð neðsta sætinu í ótímabæru spánni?
„Það gerði það ekki, alveg eins og að það gerði það ekki síðasta vetur. Ég veit hvaða leikmenn við höfum misst og að við höfum verið rólegir á markaðnum. Á rólegum markaði þá hafa samt nokkur lið í kringum okkur verið virk. Ég held líka að ég sé faktor þarna. Rúnar (Kristinsson) hefur unnið sér inn það að það sé mikil trú á því hvað hann geti gert með sitt lið. Ég skil það vel. ÍA er búið að vera dálítið áberandi á markaðnum og það virðist vera dálítið til þar. Sammi og Davíð fá alltaf fullt af atkvæðum. Ég er rólegur yfir þessari spá og líka þeim sem líklegast munu fylgja í framhaldinu," sagði Ómar.
Athugasemdir