England og Ítalía munu mætast í 28. skiptið á fótboltavellinum í kvöld. Fyrsti leikur þjóðanna var vináttulandsleikur 1933 og þá enduðu leikar með 1-1 jafntefli.
Í viðureignum þjóðanna hefur Ítalía unnið 11 sinnum, átta sinnum hefur niðurstaðan verið jafntefli og átta sinnum hefur England borið sigur úr býtum.
Englendingar eru á heimavelli í kvöld þegar liðin mætast í úrslitum EM en það er erfitt að spá í spilin fyrir leikinn.
Í tveimur af síðustu þremur skiptum sem þjóðirnar hafa mæst á stórmóti, þá enduðu leikar 0-0. Vonum að sú verði ekki raunin í kvöld.
Liðin mættust í átta-liða úrslitum EM 2012, en þá voru Roy Hodgson og Cesare Prandelli þjálfarar liðanna. Andrea Pirlo átti stórleik á miðju Ítalíu og stjórnaði hraðanum í leiknum. Staðan var 0-0, einnig eftir framlengingu og því var farið í vítaspyrnukeppni. Þar skoraði Pirlo úr Panenka-vítaspyrnu og Ítalía hafði betur. Nafnarnir Ashley Young og Ashley Cole klúðruðu vítaspyrnu fyrir England. Ítalía fór alla leið í úrslit en tapaði þar fyrir Spánverjum.
Síðasti keppnisleikur Englands og Ítalíu var í riðlakeppni HM 2014 í Brasilíu. Bæði lið féllu úr leik í riðlakeppninni á því móti. Claudio Marchisio kom Ítalíu yfir, en Daniel Sturridge jafnaði. Mario Balotelli skoraði sigurmark Ítalíu í leiknum.
Hér að neðan má sjá svipmyndir úr síðustu tveimur keppnisleikjum Englands og Ítalíu. Hvernig fer í kvöld?
Athugasemdir