Everton 2 - 2 Liverpool
1-0 Beto ('11)
1-1 Alexis Mac Allister ('16)
1-2 Mohamed Salah ('73)
2-2 James Tarkowski ('98)
1-0 Beto ('11)
1-1 Alexis Mac Allister ('16)
1-2 Mohamed Salah ('73)
2-2 James Tarkowski ('98)
Everton og Liverpool áttust við í síðasta grannaslagnum á Goodison Park áður en Everton færir sig á nýjan heimavöll.
Everton tók forystuna gegn toppliði úrvalsdeildarinnar á elleftu mínútu þegar Beto skoraði eftir mjög skemmtilega útfærða aukaspyrnu.
Það tók Liverpool þó aðeins fimm mínútur að jafna metin. Alexis Mac Allister skoraði þá með frábærum skalla eftir fyrirgjöf frá Mohamed Salah.
Everton var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og átti Liverpool mjög erfitt uppdráttar en það var lítið um færi og var staðan jöfn, 1-1, í leikhlé.
Síðari hálfleikurinn hélt áfram í svipuðu fari og sá fyrri. Leikmenn börðust fyrir hverjum bolta en sköpuðu ekki mikið af færum.
Það var á 73. mínútu sem Salah tók forystuna með sjaldgæfu færi hjá Liverpool. Hann var þá réttur maður á réttum stað og fylgdi eftir skoti frá Curtis Jones með marki.
Everton tókst ekki að ógna mikið eftir að hafa lent undir og var fimm mínútum bætt við venjulegan leiktíma. Það var á 98. mínútu sem allt virtist stefna í jafntefli þegar miðvörðurinn James Tarkowski blandaði sér í sóknarleikinn og tókst að gera ótrúlega dramatískt jöfnunarmark. Stuðningsmenn Everton réðu ekki við sig og óðu margir hverjir inn á völlinn en voru fljótir að fara aftur útaf þegar VAR skarst í leikinn.
VAR skoðaði markið í langan tíma þar sem möguleg rangstaða og brot voru skoðuð gaumgæfilega en að lokum var markið dæmt gilt.
Arne Slot þjálfari Liverpool var ekki kátur að leikslokum og tókust leikmenn liðanna á, þar sem Curtis Jones og Abdoulaye Doucouré fengu báðir að líta seinna gula spjaldið sitt og verða því í leikbanni í næsta leik. Slot fékk einnig rautt spjald í sinn hlut eftir þessa ótrúlegu dramatík.
Liverpool er með sjö stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar, með 57 stig eftir 24 umferðir.
Everton hefur farið gífurlega vel af stað undir stjórn David Moyes og er með 27 stig, tíu stigum fyrir ofan fallsvæðið.
Athugasemdir