Virgil van Dijk, fyrirliði og varnarmaður Liverpool, gaf kost á sér í viðtal eftir lokaflautið í 2-2 jafntefli í nágrannaslagnum gegn Everton á Goodison Park.
Van Dijk var svekktur eftir að Everton skoraði jöfnunarmark á 98. mínútu, þegar aðeins fimm mínútum hafði verið bætt við venjulegan leiktíma.
„Það er mjög erfitt að fá jöfnunarmark á sig á lokasekúndum leiksins, eða jafnvel eftir að lokasekúndurnar eru búnar að líða. Það er mjög erfitt að kyngja þessu jöfnunarmarki en við verðum að gera það og halda áfram á okkar striki," sagði Van Dijk að leikslokum. „Það sást á fagnaðarlátunum sem brutust út hversu mikla þýðingu þetta hefur fyrir fólkið hérna. Við lentum undir en snérum stöðunni við og börðumst allan leikinn en því miður þá var það ekki nóg til að landa sigri."
Eftir að Michael Oliver dómari flautaði leikinn af brutust átök út á milli leikmanna og fengu tveir að líta rauða spjaldið, auk Arne Slot þjálfara Liverpool og Sipke Hulshoff aðstoðarþjálfara.
„Það var einn ákveðinn leikmaður (Abdoulaye Doucouré) sem ögraði okkur og við brugðumst við sem liðsheild. Þetta varð að einu stóru rifrildi og þá er það ekki lengur mitt hlutverk að takast á við þetta, heldur hlutverk dómarans. Ég er ekki viss um að hann hafi haft fulla stjórn á aðstæðum.
„Mér fannst dómarinn spila stórt hlutverk í leiknum í kvöld þar sem hann hélt ekki sömu línu í dómgæslunni. Stundum dæmdi hann brot en svo gerðist svipað atvik og þá var það ekki brot. Þetta var eins og bikarúrslitaleikur fyrir Everton og þeir gerðu allt í sínu valdi til að gera okkur erfitt fyrir. Þetta er frábært stig fyrir þá en þungt högg fyrir okkur."
Liverpool er með sjö stiga forystu í ensku titilbaráttunni þegar fjórtán umferðir eru eftir. Arsenal situr í öðru sæti en hálf sóknarlína liðsins er á meiðslalistanum.
„Við erum í góðri stöðu í titilbaráttunni en núna eru margir erfiðir leikir framundan svo við þurfum að hafa alla í leikmannahópinum upp á sitt besta. Allir í liðinu ættu að vera vonsviknir að hafa misst þessa forystu niður en á morgun einbeitum við okkur að næsta leik og gerum betur.
„Það mikilvægasta er að við einbeitum okkur að því að gera betur, við megum ekki byrja að hugsa um hvað aðrir eru að gera, segja eða skrifa, við eigum bara að einblína á sjálfa okkur."
Athugasemdir