Eins og hér hefur áður komið fram, í fyrri pistli, tók ný útgáfa knattspyrnulaganna gildi á alþjóðavettvangi hinn 1. júní sl. Að þessu sinni voru breytingarnar á sjálfum leikreglunum þó óverulegar, en hins vegar komu nú inn í lögin ítarleg ákvæði í tengslum við VAR sem notast verður við í öllum leikjum á HM í Rússlandi eins og flestum mun kunnugt. Því er við hæfi nú að reyna að gera íslenskum knattspyrnuaðdáendum örlitla grein fyrir þeim samskiptareglum (VAR protocol) sem gilda munu á HM um notkun kerfisins.
Tilraunir með notkun VAR-kerfisins hófust í ágúst 2016 með þátttöku fjölmargra aðildarþjóða FIFA í öllum heimsálfum, annað hvort með notkun þess í völdum leikjum eða í heilu mótunum. Í þessu tilraunaferli öllu hafa verið gerðar miklar breytingar á þeim samskiptareglum sem gilda um VAR og líklegt verður að teljast að notkun kerfisins á HM nú muni leiða til enn frekari þróunar á því til framtíðar litið.
Meginreglan er sú að nota skuli kerfið þannig að það valdi "lágmarks truflun" en tryggi um leið "hámarks gagnsemi" og að takmarka beri notkun þess við "augljós mistök" dómara og "alvarleg atvik" sem dómarateymið missir af þegar málið snýst um:
Mark eða ekki mark.
Vítaspyrnu eða ekki vítaspyrnu.
Beint rautt spjald (þ.e. ekki þegar málið snýst um seinna gula spjaldið).
Mannavillt (þ.e. þegar dómarinn áminnir eða vísar af leikvelli röngum leikmanni úr hinu brotlega liði).
Því munu hér eftir sem hingað til koma upp atvik í leikjum þar sem vafi leikur á um réttmæti ákvarðana dómarans. VAR-kerfinu verður hins vegar ávallt beitt þegar málið snýst um að sannreyna:
hvort mark hafi verið skorað löglega eða ekki (og hvort leikbrot hafi átt sér stað í aðdraganda þess).
hvort dæma skuli vítaspyrnu eða ekki (og þar með einnig hvort leikbrot hafi átt sér stað í aðdraganda þeirrar ákvörðunar).
hvort sýna beri leikmanni beint rautt spjald og þá einnig hvort dómari hafi þar hugsanlega farið mannavillt. Ástæða þess að þarna skal einungs skoða réttmæti beins rauðs spjalds en ekki seinna gula spjaldsins er rökrétt, því ef meta ætti réttmæti seinna gula spjaldsins hlyti einnig að þurfa að meta réttmæti þess fyrra, ekki satt?
Fyrir utan þá meðlimi dómarateymisins sem verða áhorfendum sýnilegir á leikvellinum mun í hverjum einasta leik á HM verða starfandi átta manna VAR-teymi sem verður beintengt dómaranum í gegnum samskiptabúnað. Um er að ræða fjóra dómara (einn aðal VAR-dómara og þrjá aðstoðarmenn) og fjóra tæknimenn. Á hverjum leik verður notast við 33 upptökuvélar (þar af 12 sem bjóða upp á möguleikann á mismunandi hægum endursýningum), auk tveggja til viðbótar sem fasttengdar verða mati á rangstöðu.
Lítum fyrst á hlutverk tæknimannanna en hlutverk tveggja þeirra er að finna upptökurnar sem sýna réttu sjónarhornin og hinna tveggja síðan að taka ákvörðun um hvaða klippur VAR-dómararnir fái til skoðunar til þess að grundvalla ákvörðun sína á. Aðal VAR-dómarinn fylgist með venjulegri sýningu leiksins í sjónvarpinu, en skoðar einnig "krítísk" atvik á stórum skjá sem skipt er í fjóra glugga með mismunandi sjónarhornum sem tæknimennirnir kalla fram að hans óskum. Það er síðan einungis hann sem er í beinu sambandi við dómarann í gegnum samskiptabúnað. Fyrsti aðstoðarmaður hans tekur síðan við að fylgjast með venjulegri sýningu leiksins í sjónvarpinu á meðan VAR-aðaldómarinn skoðar endursýningar svo að teymið missi ekki af nýjum "krítísum" atvikum sem upp geta komið á meðan. Annar aðstoðarmaður hans (sem er FIFA-aðstoðardómari) einbeitir sér að því að skoða öll hugsanleg rangstöðutilfelli, en þriðji aðstoðarmaðurinn fylgist einnig með venjulegri sýningu leiksins og er VAR-aðaldómaranum jafnframt til halds og trausts við að meta "krítísk" atvik.
Þegar VAR-teymið hefur komið auga á atvik sem þeir vilja skoða betur er dómarinn strax látinn vita svo hann geti beðið með að flauta leikinn á að nýju eftir að leikur hefur næst verið stöðvaður. Sé hins vegar þegar búið að flauta leikinn á að nýju er samkvæmt knattspyrnulögunum ekki lengur hægt að breyta ákvörðun dómarans. Ef endurskoðun á atvikinu leiðir til þess að dómarinn þurfi að vita af því hefur hann tvo möguleika, þ.e. annars vegar að samþykkja mat VAR-teymisins án frekari fyrirvara eða hins vegar að skoða atvikið sjálfur á skjá sem komið er fyrir á tilteknum stað utan leikvallarins og ákveða sig í framhaldi af því.
Leiðbeiningar FIFA til dómaranna eru að þeir skuli samþykkja mat VAR-teymisins þegar málið snýst um staðreyndir, t.d. hvort um rangstöðu hafi verið að ræða í aðdraganda skoraðs marks eða vítaspyrnu; hvort boltinn hafi farið allur yfir útlínur vallarins í aðdraganda marks eða vítaspyrnu; eða hvort brotið hafi verið framið innan eða utan vítateigs. Þetta eru atvik sem eru hlutlæg og mælanleg og því ekki ástæða fyrir dómarann innan vallar að skoða þau aftur. Sama gildir um atvik þar sem dómarinn fer mannavillt við útdeilingu agarefsinga.
Ef atvikið snýr hins vegar að túlkun knattspyrnulaganna mun dómarinn sjálfur skoða það aftur á skjánum. Dæmi um slíkt gæti verið að skoða hvort rangstaða leikmanns þegar mark var skorað hafi verið refsiverð, eða hvort sóknarbrot hafi verið framið í aðdraganda marksins. Í vítaspyrnutilvikum gæti málið snúist um hvort tæklingin hafi verið lögleg eða gáleysisleg að mati dómarans eða hvort sóknarmaðurinn hafi brotið af sér fyrst o.s.frv. Dómarinn mun einnig skoða aftur sjálfur öll atvik þar sem málið snýst um að sýna (eða sýna ekki) leikmanni beint rautt spjald.
Hvernig geta síðan leikmenn (og áhorfendur) áttað sig á því að nú séu einhver samskipti að eiga sér stað á milli dómarans og VAR-teymisins? Það gefur dómarinn til kynna annað hvort með því að setja höndina upp að eyranu sem þýðir að hann ætli að bíða með að flauta leikinn á þar sem hann eigi nú í samskiptum við VAR-teymið eða með því að "teikna" í loftið lítinn skjá með fingrunum sem þýðir að hann hyggist sjálfur skoða endursýningu af atvikinu eða að hann hafi breytt fyrri ákvörðun sinni í kjölfar ábendingar frá VAR-teyminu. FIFA hefur einnig gefið út að upplýsingum um það sem fram fer verði komið til áhorfenda á markatöflunum á leikvöngunum, en fróðlegt verður að fylgjast með því hvernig takast mun til í þeim efnum. Gangi þessi upplýsingamiðlun til áhorfenda (bæði á vellinum og í sjónvarpi) ekki snuðrulaust fyrir sig verður að teljast ólíklegt að knattspyrnuaðdáendur um heim allan muni taka VAR-kerfið í sátt.
Samkvæmt VAR-samskiptareglunum getur aðstaða VAR-teymisins annað hvort verið á sjálfum leikvöngunum eða, eins og hátturinn mun hafður á í Rússlandi nú, í sérstakri stjórnstöð fjarri þeim (í Moskvu). Engu að síður mun VAR-aðaldómarinn vera allan leikinn í beinu sambandi við dómarann á leikvellinum í gegnum samskiptabúnað.
Eins og sjá má af framansögðu þá er hér ekki um neina smá yfirbyggingu að ræða, en skv. þeim VAR-samskiptareglum sem nú er búið að sníða inn í knattspyrnulögin eru kröfurnar til umfangs kerfisins hins vegar í raun miklu viðaminni. Lágmarkskröfurnar sem uppfylla þarf til þess að IFAB og FIFA geti samþykkt notkun kerfisins fela í sér að notast þarf við a.m.k. fjórar upptökuvélar og þrjá einstaklinga í stjórnstöðinni, þ.e. VAR-dómara, VAR-aðstoðarmann og tæknistjóra. Það þarf reyndar talsvert mikið meira til, sérstaklega hvað varðar þjálfun og kennslu VAR-dómaranna og tæknimannanna, en kannski er ekki eins langt í að VAR-kerfið verði tekið upp í Pepsídeildinni á Íslandi og menn kunna að halda.
En að lokum þessi árétting frá IFAB. "Það er dómarinn inni á vellinum sem tekur fyrstu ákvörðunina - það er líka dómarinn inni á vellinum sem tekur lokaákvörðunina eftir ábendingu frá VAR-teyminu. VAR-kerfið tekur engar ákvarðanir upp á sínar eigin spýtur".
Gleðilega HM-hátíð!
Gylfi Þór Orrason
Athugasemdir