Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 12. september 2021 17:31
Brynjar Ingi Erluson
England: Liverpool vann verðskuldaðan sigur á Leeds
Fabinho fagnar marki sínu ásamt Thiago og Harvey Elliott
Fabinho fagnar marki sínu ásamt Thiago og Harvey Elliott
Mynd: EPA
Mohamed Salah gerði 100. mark sitt í úrvalsdeildinni
Mohamed Salah gerði 100. mark sitt í úrvalsdeildinni
Mynd: EPA
Leeds 0 - 3 Liverpool
0-1 Mohamed Salah ('20 )
0-2 Fabinho ('50 )
0-3 Sadio Mane ('90 )
Rautt spjald: Pascal Struijk, Leeds ('60)

Liverpool vann Leeds United, 3-0, í 4. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Elland Road í dag. Mohamed Salah gerði 100. deildarmark sitt og Harvey Elliott fór af velli á börum eftir ljótt brot frá Pascal Struijk.

Gestirnir voru með mikla yfirburði í leiknum og spiluðu glimrandi góðan fótbolta þó færanýtingin hafi ekki verið góð.

Rodrigo átti fyrsta hættulega færi dagsins. Raphinha fann Rodrigo fyrir utan teiginn sem fékk allan tímann í heiminum en skot hans fór beint á Alisson.

Þrettán mínútum síðar skoraði Mohamed Salah. Joel Matip keyrði með boltann í átt að teignum, fann Trent Alexander-Arnold hægra megin við teiginn sem kom með góðan bolta fyrir á Salah sem rétt út löppina og skoraði. 100. mark hans í úrvalsdeildinni.

Thiago kom boltanum í netið nokkrum mínútum síðar eftir sendingu frá Salah en egypski sóknarmaðurinn var rangstæður þegar hann fékk boltann í uppbyggingu sóknarinnar.

Liverpool fékk nokkur góð tækifæri næstu mínúturnar en enginn fékk þó betra færi en Virgil van Dijk. Alexander-Arnold átti fyrirgjöf og var van Dijk aleinn á teignum og stangaði hann í átt að markinu en Patrick Bamford bjargaði á línu.

Staðan í hálfleik 1-0 og í raun ótrúlegt miðað við gang leiksins en Fabinho bætti við öðru þegar fimm mínútur voru liðnar af þeim síðari. Alexander-Arnold átti hornspyrnu, boltinn datt í teignum og var Fabinho fyrstur að átta sig og sparkaði hann boltanum í netið.

Tyler Roberts, framherji Leeds, fékk sín færi um miðjan síðari hálfleikinn til að koma heimamönnum inn í leikinn en fór illa að ráði sínu í báðum færum.

Pascal Struijk var rekinn af velli á 59. mínútu eftir ljóta aftan í tæklingu á Harvey Elliott. Enski leikmaðurinn lenti illa og þegar fyrstu myndir eru skoðaðar virðist hann hafa ökklabrotnað og borinn af velli í kjölfarið.

Sadio Mane fékk fjölmörg færi til að skora í leiknum en þetta var langt frá því að vera hans dagur. Hinum megin á vellinum komst Bamford yfir miðju, sá að Alisson var framarlega. Hann reyndi langan bolta yfir Alisson en brasilíski markvörðurinn rétt náði að blaka boltann yfir.

Erfiðið hjá Mane bar árangur undir lok leiksins. Jordan Henderson fékk boltann hægra megin við teiginn, kom með langan bolta á Thiago, sem fann Mane í teignum og senegalski framherjinn klikkaði ekki í þetta sinn.

Lokatölur 3-0 fyrir Liverpool sem er með 10 stig eftir fjóra leiki en Leeds er með 2 stig eftir jafnmarga leiki.
Athugasemdir
banner