David Moyes er kominn aftur til Everton eftir rúmlega 11 ára fjarveru frá félaginu.
Everton er í fallbaráttu í ensku úrvalsdeildinni og hefur verið í fjárhagsörðugleikum á undanförnum árum en það eru bjartir tímar framundan eftir að Friedkin hópurinn keypti félagið, sem er einnig að færa sig á nýjan heimavöll fyrir næstu leiktíð.
„Fyrir nokkrum vikum var ekki útlit fyrir að Everton gæti verið í fallbaráttu en núna er staðan önnur. Ég átta mig á því að þetta er erfitt verkefni og að við munum þurfa mikinn stuðning frá öllum innan félagsins. Leikmennirnir þurfa að spila betur, þeir verða að skora fleiri mörk," sagði Moyes í dag, en það kom mörgum á óvart þegar Sean Dyche var rekinn af nýju eigendunum.
„Ég trúi því að við séum með flottan leikmannahóp sem getur gert fína hluti. Það er mikilvægt að allir leikmenn séu á sömu blaðsíðu ef við ætlum að klifra upp töfluna. Við þurfum að vera uppá okkar besta ef við viljum sleppa við fallbaráttuna.
„Vonandi getum við bætt nokkrum leikmönnum við hópinn fyrir mánaðamót og hjálpað til við að skapa jákvætt andrúmsloft. Vonandi getum við komið saman og eytt smá peningum."
Everton er með 17 stig eftir 19 umferðir, einu stigi fyrir ofan fallsvæðið. Liðið sigraði gegn Wolves í byrjun desember og gerði svo jafntefli við Arsenal, Chelsea og Manchester City, en því fylgdu tapleikir gegn Nottingham Forest og Bournemouth. Everton skoraði aðeins eitt mark í síðustu fimm deildarleikjum sínum.
Athugasemdir