Pickford framlengir við Everton - Barcelona hyggst kaupa Rashford - Ekki framlengt við Lewandowski
banner
   mán 13. október 2025 12:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Klárt mál að við munum yngja hópinn" - Högg, aldur og nýr samningur
Gerði KA að bikarmeisturum í fyrra og er búinn að framlengja samninginn.
Gerði KA að bikarmeisturum í fyrra og er búinn að framlengja samninginn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það eru leikmenn að renna út sem fá ekki samning áfram og leikmannahópurinn mun yngjast'
'Það eru leikmenn að renna út sem fá ekki samning áfram og leikmannahópurinn mun yngjast'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Hann er búinn að vera frábær síðan hann komst í gang'
'Hann er búinn að vera frábær síðan hann komst í gang'
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
'Daníel varð Íslandsmeistari með Víkingi, verið einn af bestu mönnum mótsins.'
'Daníel varð Íslandsmeistari með Víkingi, verið einn af bestu mönnum mótsins.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Mér finnst við vera með KA-liðið á mjög flottum stað núna og við ætlum að vera í lagi aðeins fyrr á næsta ári'
'Mér finnst við vera með KA-liðið á mjög flottum stað núna og við ætlum að vera í lagi aðeins fyrr á næsta ári'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli Sveinn var fyrirliði KA á sínum tíma.
Atli Sveinn var fyrirliði KA á sínum tíma.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Halldór Hermann Jónsson er styrktarþjálfari KA.
Halldór Hermann Jónsson er styrktarþjálfari KA.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Svona á nýi leikvangur KA að líta út.
Svona á nýi leikvangur KA að líta út.
Mynd: KA
'Ég vil meina að besta árið undir minni stjórn hafi verið 2023. Við endum í 7. sæti, förum í þriðju umferð í Evrópu og í bikarúrslit - ég held að fólk átti sig ekki á því hversu erfitt það var'
'Ég vil meina að besta árið undir minni stjórn hafi verið 2023. Við endum í 7. sæti, förum í þriðju umferð í Evrópu og í bikarúrslit - ég held að fólk átti sig ekki á því hversu erfitt það var'
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
KA lánaði unglingalandsliðsmarkmanninn Ívar Arnbro í Völsung. Spurning hvort hann spili með KA á næsta tímabili.
KA lánaði unglingalandsliðsmarkmanninn Ívar Arnbro í Völsung. Spurning hvort hann spili með KA á næsta tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Hallgrímur Jónasson og KA náðu í síðustu viku samkomulagi um að Haddi verði áfram þjálfari liðins næstu tvö árin.

Haddi er að klára sitt þriðja tímabil sem aðalþjálfari liðsins, tvígang endað í 7. sæti og gæti gert það aftur á þessu tímabili. Í fyrra varð KA bikarmeistari og 2023 vann liðið tvö einvígi í forkeppni Sambandsdeildarinnar.

Fótbolti.net ræddi við Hadda um tíðindin.

„Mér líður mjög vel með þetta, þetta er það sem ég vildi og KA líka, þá er maður bara mjög sáttur. Mér finnst við vera með KA-liðið á mjög flottum stað núna og við ætlum að vera í lagi aðeins fyrr á næsta ári. Þá erum við helvíti ánægðir með okkur," segir Haddi. KA mun enda í 7.-9. sæti deildarinnar og þjálfarinn vísar í það að byrjunin síðustu tvö tímabil hefur verið brött og liðið verið við botninn fyrri hluta mótsins.

Ánægður með heildina og stoltur
Var eitthvað stress að þessa samningur færi ekki í gegn?

„Nei, ég er yfirleitt mjög rólegur í svona málum, ekki að stressa mig, ég var ekkert stressaður. Reyndi bara að vinna mína vinnu eins vel og ég gat og mér hefur fundist það takast vel, alls konar lægðir síðustu þrjú árin en í heildina er ég mjög ánægður og stoltur af því sem ég hef gert með KA. Það var gaman þegar gekk vel, héldum haus þegar gekk illa og stjórnin hefur stutt vel við mig þegar það þarf."

„Mér finnst við hafa gert hlutina vel. Ef síðustu þrjú ár hjá KA eru skoðuð þá eru þau mjög flott og skemmtileg, bikarmeistaratitill, Evrópuleikir og ég hef verið ánægður með þetta. Auðvitað vill maður alltaf gera aðeins betur í deildinni, en þegar menn rýna í þetta og skoða af alvöru þá sést að við höfum lent í alls konar áföllum - eins og mörg lið - en ég er ánægður með heildina."


Hópurinn verður yngdur
Í tilkynningu KA þegar Haddi framlengdi kom fram að það yrðu breytingar á liðinu. Ellefu leikmenn sem hafa komið við sögu í sumar eru að renna út á samningi. Eru einhverjar sérstakar breytingar sem þú vilt sjá á hópnum?

„Ég hef alveg skoðun á því, og stjórnin líka, við vinnum svo út frá því og reynum að gera það sem við viljum gera - en svo er spurning hvort það tekst. Það er erfiðara að fá suma menn norður en til Reykjavíkur, en það er á hreinu hvaða leikmönnum við viljum halda."

„Núna er Birnir (Snær Ingason) búinn að vera mikið á milli tannana á fólki, búinn að standa sig vel og bent á að okkur fór að ganga vel um það leyti sem hann kom. Ég vil reyndar meina að það hafi byrjað að ganga vel rétt áður en hann kom og hann þurfti aðlögunartíma og veit það sjálfur, en hann er búinn að vera frábær síðan hann komst í gang."

„Það er klárt mál að við munum aðeins yngja hópinn, við viljum gera það. Það eru leikmenn að renna út sem fá ekki samning áfram og leikmannahópurinn mun yngjast. Mér finnst við vera með góð spil á höndunum núna til þess að yngja hópinn og vera með sterkt lið á næsta ári. Vonandi tekst það."


Gott að fá Atla Svein til baka
„Það verða líka breytingar í þjálfarateyminu. Atli Sveinn Þórarinsson er kominn inn, mikill KA-maður, ég mun spjalla við hann um hvað við viljum gera og svo verður breyting á markmannsþjálfarastöðunni. Kappa (Michael Charpentier Kjeldsen) fór fyrir nokkru síðan og Kjartan (Páll Þórarinsson) hefur komið frá Húsavík og verið með okkur. Það á eftir að koma í ljós hvernig þau mál verða."

Það er ekki ljóst hvort Atli Sveinn verði titlaður aðstoðarþjálfari KA, en hann verður í það minnsta í meistaraflokksteyminu. „Það eru mjög góðar fréttir að hann er að koma inn í fullt starf hjá KA, hann er mikill KA-maður, var fyrirliði og hefur reynslu sem atvinnumaður erlendis og hefur þjálfað meistaraflokk. Það er gott að fá hann til baka."

„Við höfum valið að setja hausinn undir okkur og ekki vælt yfir því"
Þú talar um að vilja byrja betur, og eðlilega. Það voru fáránlega mikil meiðsli í vetur. Er eitthvað hægt að gera eitthvað fyrirbyggjandi svo það gerist ekki aftur?

„Ég mun auðvitað skoða allt sem ég þarf að gera sem þjálfari, ég þarf að gera allt sem ég get til þess að liðið komi betur undirbúið til leiks og mun fara í naflaskoðun með það. Það er rosalega erfitt að rýna í sumt út af meiðslunum. Hvernig hefði staðan verið ef ég hefði ekki verið með 9-11 menn meidda? Það var högg, alveg eins og þegar ég tók við KA-liðinu, þá misstum við út markahæsta mann deildarinnar (Nökkva Þey Þórisson) og fengum mann frá Færeyjum (Pætur Petersen sem skoraði eitt í deild, þrjú í bikar og eitt í Evrópu). Fyrir þetta tímabil misstum við tvo mjög mikilvæga leikmenn, Daníel (Hafsteinsson) og Svein Margeir (Hauksson), báðir á besta aldri, með geggjaða hlaupagetu; Daníel varð Íslandsmeistari með Víkingi, verið einn af bestu mönnum mótsins."

„Auðvitað hafa verið mikil högg, en við höfum valið að setja hausinn undir okkur og ekki vælt yfir því. Á endanum höfum við bæði í ár og í fyrra komið nokkuð vel út úr eftir að leið á tímabilið. Núna þurfum við að byrja mótið betur. Svo er líka punktur með lið út á landi, hvenær kemur hópurinn saman? Vestri, ÍBV, KA, hóparnir þar koma oft seinna saman þar heldur en hjá liðunum sem eru fyrir sunnan. Það hefur líka áhrif á byrjunina. Við erum að ræða þetta og skoða hvað við getum gert."

„Varðandi fyrirbyggjandi æfingar þá hefur Halldór Hermann séð um styrktarþjálfunina og verið frábær. Það hafa ekki verið margir meiddir í sumar (fyrir utan Stubb), það var enginn meiddur árið á undan og einu meiðslin núna hjá okkur eru tvö hásinaslit. Þetta var bara ótrúlega furðulegt, meiðslin voru furðuleg. Birgir Baldvinsson meiddist í Bandaríkjunum og fór í aðgerð þar á ökkla, Rodri fer úr axlarlið og tveir nefbrotnuðu. Það var ekki þannig að menn væru að togna aftan í læri, það var einn maður sem tognaði á undirbúningstímabili og það var leikmaður sem var nýkominn og var bara ekki í nógu góðu standi þá."

„Það sem við getum gert er að fá menn fyrr saman og eins og staðan er núna á hópnum sem mun byrja næsta vor, þá erum við ekki með mikið af meiðslum. Ég held að þetta hafi verið svolítið 'one-off' ár, óheppnir með meiðsli og það hafði áhrif á að við byrjuðum ekki nógu vel ásamt því að við misstum góða leikmenn. Við reyndum og reyndum og reyndum að fá leikmenn í staðinn og þeir komu svo seint inn."


Langar að vera ofar en engin martröð að vera um miðja deild
Hvernig líður þér með stöðuna á liðinu, ert þú og KA sátt við 7.-8. sætið?

„Nei, ég vil klárlega fara hærra. Ef horft er í vænt stig (expected points) þá eigum við að vera í þriðja sæti. Þrátt fyrir erfiða byrjun endum við bara markatölunni frá topp sex. Ég er ánægður með stöðuna á okkur í dag, en ég er ekki ánægður með 7.-8. sæti. Fólk verður samt að átta sig á því að við erum KA, við viljum stefna hærra, en það er engin martröð að KA endi um miðja deild."

„Ef maður er heiðarlegur og skoðar stærð liðanna og peningana, sem hefur klárlega áhrif, þá er ekkert að því að lið utan af landi endi um miðja deild. En auðvitað langar okkur að vera ofar. Við viljum fara ofar og teljum okkur geta það, til þess að ná því verðum við að vera stöðugri yfir tímabilið."

„Ég vil meina að besta árið undir minni stjórn hafi verið 2023. Við endum í 7. sæti, förum í þriðju umferð í Evrópu og í bikarúrslit - ég held að fólk átti sig ekki á því hversu erfitt það var. Í ár var engin Evrópa að trufla okkur, bara tveir leikir sem vissulega var gaman að spila og gekk vel í. Það verður líka að horfa í samhengið þegar horft er í sæti í deildinni. Fyrir tveimur árum var að mínu viti miklu, miklu betra ár en í ár, en samt varð niðurstaðan 7. sæti, (sem getur gerst aftur núna)."


Spilar úr því sem hann hefur
Þú talar um að þið ætlið að yngja hópinn. Fer umræðan um aldurinn á KA-liðinu í taugarnar á þér?

„Já og nei. Mér finnst furðulegt hvernig menn snúa stundum hlutunum upp. Þegar ég er með mjög marga eldri leikmenn í hópnum þá er liðið mitt eldra heldur en hjá þeim sem eru með marga unga leikmenn."

„Ungur leikmaður sem er tilbúinn og góður, hann spilar. Sem dæmi byrjaði Mikael Breki (Þórðarson, 2007) tvo leiki í sumar, hann er búinn að vera mikið meiddur, hann hefur sýnt að hann er tilbúinn í úrvalsdeild og þá spilar hann. Nú eru að koma strákar á hans aldri, Valdimar (Logi Sævarsson, 2006), Ívar (Arnbro Þórhallson, 2006) markmaður. Við ákváðum að lána stráka út til þess að þeir fengju góðan spiltíma. Þetta sveiflast, það koma einhver ár þar sem KA er með aðeins yngra lið."

„Það er ekkert launungarmál að við erum búnir að selja miðaldurinn úr félaginu, Binni (Brynjar Ingi Bjarnason) Þorri (Mar Þórisson), Nökkvi, Danni, Svenni - þeir fóru allir. Við hefðum svo sannarlega vilja hafa þá og spila þeim, þá væri liðið yngra. En í staðinn koma Marcel (Römer) og Jóan Símun Edmundsson. Þeir voru ekki að lækka meðalaldurinn. Við svo sannarlega leituðum að yngri gaurum, en það bara gekk ekki."

„Ég spila úr því sem ég hef. Ég verð alveg var við umræðuna, en mér finnst oft neikvæð umræða um að við séum ekki að nota stráka sem eru undir tvítugt. Þeir hafa fengið nokkra leiki síðustu ár sem mér finnst mjög flott fyrir þá, þegar þeir eru klárir þá spila þeir. Þeir sem standa sig vel og bæta sig, þeir munu fá stærra hlutverk á næsta ári."


Frábær leikvangur að rísa
KA er að færa sig á nýjan völl á næsta ári, liðið mun allavega spila einhverja leiki þar, framkvæmdir hafa staðið yfir síðustu misseri.

Er spennandi að taka þátt í þeirri breytingu?

„Það er mjög spennandi, frábær leikvangur sem er að rísa. Ég reikna ekki með að hann verði til í byrjun móts en við munum fara á völlinn einhvern tímann á tímabilinu. Það er ótrúlega jákvæð og skemmtileg breyting, bæði fyrir leikmenn og þá sem koma á leikinn. Það er gaman að koma í flotta stúku á flottum leikvangi. Það er búið að vera í bígerð lengi uppi í KA, held það var byrjað að grafa holu 2008 þegar krísan kom. Það er virkilega spennandi, spenningur í fólki. Steypan er að rísa alltaf hærra og hærra og allt að verða raunverulegra," segir Haddi.
Athugasemdir