Mbeumo, Wirtz, Diomande, Quenda, Nypan, Van Nistelrooy, Cherki og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mið 13. nóvember 2024 13:43
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Heimild: Gula Spjaldið 
Bönkuðu „óvart" upp á hjá Guðjóni Pétri og sannfærðu hann um að koma í Val
Óli Jó og Bjössi Hreiðars.
Óli Jó og Bjössi Hreiðars.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Blikum tímabilið 2015.
Í leik með Blikum tímabilið 2015.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðjón Pétur Lýðsson var í skemmtilegu viðtali í Gula Spjaldinu. Hann fór yfir feril sinn til þessa og sagði skemmtilegar sögur.

Ein þeirra er af aðdraganda þess að hann sneri aftur í Val fyrir tímabilið 2016. Guðjón Pétur hafði leikið með Val tímabilin 2011 og 2012 en var hjá Breiðabliki 2013-15. Sagan er af heimsókn þjálfaranna Ólafs Jóhannessonar og Sigurbjörns Hreiðarssonar til Guðjóns Péturs.

„Ég var að renna út á samningi eftir tímabilið 2015. Óli Jó og Bjössi Hreiðars, rebbaskapur í þeim, þeir eru þarna mættir á Hlíðarenda og voru klókir, byrjuðu að vasast í mér."

„Þeir bönkuðu í eitt skiptið upp á heima hjá mér, þóttust vera að fara í húsið við hliðina á: „Býrð þú hér?" og spurðu mig hvort ég ætlaði ekki að bjóða þeim inn. Þeir komu inn og þá sagði Óli: „Þú ert að koma til mín á næsta ári." Ég var ekki búinn að semja eða neitt slíkt, en þeir náðu mér þarna. Þeir töluðu um að fá mig fyrir mótið 2015, man að þeir gerðu svo tilboð um mitt mót til að æsa í Blikunum. Þá var ég búinn að vera spila vel. Um mitt mót ætluðu Blikarnir að semja við mig,"
sagði Guðjón Pétur sem var þá búinn að ákveða að hann myndi fara í Val eftir tímabilið.

Hann gaf ekki upp nákvæma tímasetningu á heimsóknunni en miðað við frásögnina má álykta að um sé að ræða atburð sem átti sér stað áður en önnur félög máttu byrja að ræða við miðjumanninn um að fá hann í sínar raðir.

„Óli og Bjössi, þetta er rosalegasta dúó allra tíma, þeir eru hættulegir saman," sagði Guðjón Pétur.

Hjá Val varð hann tvisvar sinnum Íslandsmeistari og einu sinni bikarmeistari.
Athugasemdir
banner