Haaland verður með riftunarákvæði - Real Madrid ætlar að fá Saliba - Antony til Newcastle?
   þri 14. mars 2023 20:32
Brynjar Ingi Erluson
Lengjubikarinn: Frábærir Eyjamenn komnir í undanúrslit eftir sigur á Blikum
Halldór Jón Sigurður Þórðarson átti góðan leik á Kópavogsvelli
Halldór Jón Sigurður Þórðarson átti góðan leik á Kópavogsvelli
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Patrik skoraði tvö fyrir Blika en það dugði ekki til
Patrik skoraði tvö fyrir Blika en það dugði ekki til
Mynd: blikar.is
Breiðablik 2 - 3 ÍBV
1-0 Patrik Johannesen ('13 )
1-1 Alex Freyr Hilmarsson ('38 )
1-2 Halldór Jón Sigurður Þórðarson ('48 )
2-2 Patrik Johannesen ('76 )
2-3 Bjarki Björn Gunnarsson ('93 )
Lestu um leikinn

ÍBV tók síðasta sætið í undanúrslitum A-deildar Lengjubikarsins eftir að liðið vann góðan 3-2 sigur á Breiðabliki á Kópavogsvelli í kvöld. Eyjamenn unnu alla fjóra leiki sína í riðlinum.

Það var ljóst fyrir leikinn að Breiðablik þyrfti að vinna með að minnsta kosti þremur mörkum til að þess að komast áfram í undanúrslitin og byrjaði það vel.

Patrik Johannesen kom Blikum yfir á 13. mínútu. Gísli Eyjólfsson gerði frábærlega áður en Jason Daði Svanþórsson kom boltanum á Patrik og skaut Færeyingurinn boltanum snyrtilega í hornið.

Filip Valencic var nálægt því að jafna metin stuttu síðar en skot hans hafnaði í stöng eftir að Höskuldur Eyjólfsson hafði átt slæma sendingu.

Patrik gat tvöfaldað forystuna á 23. mínútu eftir að hann fékk að hlaupa í gegnum vörnina án þess að nokkur maður kæmist nálægt honum. Guy Smit, markvörður Eyjamanna, gerði hins vegar vel og varði skot hans í stöng.

Þetta gaf Eyjamönnum neista því jöfnunarmarkið kom fimmtán mínútum síðar. Halldór Jón Sigurður Þórðarson kom með fína pressu á Viktor Örn Margeirsson og tókst að vinna boltann áður en hann kom honum á Sverri Hjaltested. Hann fann Alex Frey Hilmarsson í teignum og þaðan hafnaði boltinn í netinu.

Blikar komu boltanum í netið undir lok fyrri hálfleiks. Stefán Ingi Sigurðarson skoraði þá eftir fyrirgjöf frá Höskuldi en markið dæmt af vegna rangstöðu. Tæpt var það.

Eyjamenn mættu öflugir til leiks í þeim síðari og tóku forystuna í gegnum Halldór Jón. Valencic kom boltanum á Halldór sem skoraði og brekkan ansi brött fyrir Blika.

Heimamenn náðu ekki að jafna leikinn fyrr en tæpar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum. Aftur var það Patrik eftir vippusendingu frá Höskuldi.

Breki Ómarsson fékk gullið tækifæri til að loka leiknum fyrir Eyjamenn þegar fjórar mínútur voru eftir en skaut beint á Anton Ara Einarsson í markinu. Algert dauðafæri.

Gestirnir héldu samt áfram að leita að sigurmarki og það kom fyrir rest og aftur eftir slæm varnarmistök í teig Blika. Hermann Þór Ragnarsson lagði upp fyrir Bjarka Björn Gunnarsson sem gerði laglegt mark.

Eyjamenn vinna því riðilinn með fullt hús stiga eða 12 stig og eru komnir í undanúrslit. Frammistaða Blika vonbrigði á meðan Eyjamenn líta vel út.

ÍBV mætir því KA í undanúrslitum á laugardag klukkan 14:00 á meðan Valur og Víkingur mætast í hinum undanúrslitaleiknum.
Athugasemdir
banner
banner
banner