Real Madrid vill Enzo og Huijsen - Liverpool, Arsenal og Man Utd hafa áhuga á Gibbs-White - Sane orðaður við Liverpool
   fös 14. mars 2025 11:40
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Formaður Fjölnis ósáttur við KSÍ - „Ekki nóg að kíkja á menn þegar þeir eru komnir í KR eða ÍA"
Fá kallið við það eitt að skipta úr Fjölni
Icelandair
Júlíus Mar í leik með KR í vetur.
Júlíus Mar í leik með KR í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Baldvin Berndsen.
Baldvin Berndsen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Halldór Snær í leik með KR í vetur.
Halldór Snær í leik með KR í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Júlíus í leik með Fjölni í haust.
Júlíus í leik með Fjölni í haust.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir breytingu á U21 landsliðinu eru nú þrír leikmenn í hópnum sem léku með Fjölni á síðasta tímabili. Baldvin Þór Berndsen var kallaður inn í hópinn vegna meiðsla hjá Birgi Steini Styrmissyni en hann er uppalinn hjá Fjölni og var í lykilhlutverki á síðasta tímabili. Hann var svo keyptur til ÍA fyrir þremur vikum síðan.

Fyrir í U21 hópnum voru þeir Halldór Snær Georgsson og Júlíus Mar Júlíusson sem keyptir voru til KR frá Fjölni í október. Þeir léku báðir sinn fyrsta U21 landsleik í nóvember en Baldvin gæti spilað sinn fyrsta leik fyrir yngri landsliðin í komandi leikjum gegn Ungverjum og Skotum.

Björgvin Jón Bjarnason, formaður fótboltadeildar Fjölnis, ræddi við Fótbolta.net í kjölfar tíðinda dagsins. Hann hafði sitthvað um vinnubrögð KSÍ að segja.

„Í mínum huga er það þannig að það að leikmenn fái kallið í U21 landsliðið við það eitt að skipta úr félaginu Fjölni, án þess að sýna nokkra frammistöðu á vellinum með nýju liði, spila ekki einu sinni keppnisleiki, en eru komnir í U21 liðið - það gefur rosalega vond skilaboð til ungra leikmanna. Það er líka frekar dapurlegt vitni um hvernig menn virðast vinna að vali í þessi lið. Þessir leikmenn hafa ekkert gert annað en að skipta um félag, þeim hefur ekki gefist færi á því að sýna að þeir hafi bætt eitthvað við færni frá því sem var áður," segir Björgvin.

„Þetta gerir lítið úr starfi félaga sem vanda sig við að ala upp unga leikmenn eins og Fjölnir gerir, og fleiri félög. Þetta á ekki bara við um Fjölni. Þetta hefur líka grafalvarleg fjárhagsleg áhrif fyrir þessi félög. Leikmennirnir eru orðnir verðmætari við það eitt að komast upp í U21 liðið."

„Það eru einhverjir hérna í Grafarvoginum sem eru þeirrar skoðunar að yfirstjórn borgarinnar eigi erfitt með að rata í Grafarvoginn. Ég get eiginlega ekki dregið aðra ályktun en að þeir þarna niður frá hjá KSÍ eigi erfitt með að rata. En þetta er nú ekki flókið, er bara upp Miklubrautina og til vinstri við Höfðabakkabrú. Ef þeir eiga erfitt með að rata þá geta þeir hringt í okkur og við getum örugglega boðið þeim upp á kaffi. Þetta er bara algjört rugl."

„Að mínu viti er þetta þessu sambandi til skammar og þetta er stórskaðlegt fyrir þessi félög sem fyrir þessu verða."


Í nóvember var fyrsta verkefni nýs aldurshóps hjá U21 (fór úr því að þeir elstu voru fæddir 2002 í að þeir elstu væru fæddir 2004), þá komu þeir Júlíus og Halldór inn í hópinn. Ertu viss um að þeir hefðu ekki verið í hópnum ef þeir hefðu verið í Fjölni?

„Þetta eru báðir leikmenn sem eru búnir að vera algjörlega framúrskarandi í gegnum sinn feril. Mér vitanlega á Júlíus engan landsleik með yngri landsliðunum [innskot fréttamanns: Júlíus lék þrjá vináttuleiki með U19 árið 2022], það finnst mér hneisa fyrir KSÍ. Ég er nokkuð viss um að ef hann hefði átt sinn yngri flokka feril hjá félagi sem hefði aðeins hærri prófíl, þá væri þetta leikmaður með mjög marga leiki með yngri landsliðum Íslands. Það er bara langt í Grafarvoginn."

„Halldór á leiki, þannig ég get ekki beitt sömu lógík á það."


Fréttamaður benti Björgvini á þá staðreynd að Júlíus ætti þrjá leiki með U19 að baki, Björgvin sagði að það breytti hans skoðun ekki.

„Mér finnst þetta bara vera dapurlegt og finnst að menn þurfi aðeins að hysja upp um sig buxurnar og leita aðeins víðar en þeir gera í dag. Það er ekki nóg að fara kíkja á menn þegar þeir eru komnir í KR eða ÍA. Við eigum haug af þessum strákum hérna upp í Grafarvogi í dag, þannig menn eru bara velkomnir."

„Ég vil þessum drengjum allt það besta, Fjölnir á hagsmuni af því að þeim gangi vel. Við eigum af því fjárhagslega hagsmuni og eigum af því félagslega hagsmuni. Við eigum alla hagsmuni af því að öllum leikmönnum gangi vel eftir að þeir hætta að spila með okkur,"
segir Björgvin.

Þeir Baldvin, Halldór og Júlíus eru allir fæddir 2004. Júlíus á að baki þrjá leiki með U19 og leikinn gegn Póllandi með U21 í nóvember, Halldór á að baki átta leiki með U19 og leikinn gegn Póllandi með U21 í nóvember en Baldvin hefur aldrei spilað leik fyrir yngri landsliðin.
Athugasemdir
banner
banner
banner