banner
   lau 14. maí 2022 11:12
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Liverpool á eftir leikmanni sem mætti Blikum í fyrra
Ramsay reynir hér að ná boltanum af Davíð Ingvarssyni.
Ramsay reynir hér að ná boltanum af Davíð Ingvarssyni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Liverpool hefur mikinn áhuga á því að kaupa Calvin Ramsay, bakvörð Aberdeen í Skotlandi.

Fjöldi fjölmiðla á Bretlandseyjum fjallar um þetta, þar á meðal Sky Sports.

Ramsay er hægri bakvörður sem kom hingað til lands í fyrra er hann lék með Aberdeen gegn Breiðabliki í forkeppni Sambandsdeildarinnar. Aberdeen vann það einvígi með naumindum.

Ramsay er 18 ára gamall og telur Liverpool að hann sé tilvalinn leikmaður til að veita Trent Alexander-Arnold samkeppni um stöðu hægri bakvarðar.

Þess má geta að Ramsay hefur talað um Alexander-Arnold sem sína helstu fyrirmynd í fótboltanum.

Aberdeen mun aðeins selja leikmanninn fyrir meira en 3 milljónir punda, sem yrði þá stærsta sala í sögu félagsins.

Það eru fleiri félög sem hafa áhuga en Liverpool er líklegasti áfangastaður hans.
Athugasemdir
banner
banner