Úrslitaleikur Evrópumótsins fer fram í kvöld þegar Spánn og England eigast við í gríðarlega eftirvæntum risaslag.
Spánverjar hafa verið afar sannfærandi á þessu Evrópumóti þar sem þeir rúlluðu Ítalíu og Króatíu upp í riðlakeppnini áður en þeir slógu Þýskaland og Frakkland úr leik á leið sinni í úrslitaleikinn.
Englendingar hafa aftur á móti ekki verið sannfærandi en eru þó komnir alla leið í úrslitin eftir dramatískt jöfnunarmark gegn Slóvakíu, vítakeppni gegn Sviss og loks nauman sigur gegn Hollandi í undanúrslitum.
Englendingar eru þó með ótrúlega mikil gæði í leikmannahópi sínum og var það Ollie Watkins, sem kom inn af bekknum til að skora sigurmarkið gegn Hollandi, sem líkti leikstíl Englendinga á EM við leikstílinn hjá Real Madrid í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar.
Það má því búast við alvöru slag á Ólympíuleikvanginum í Berlín í kvöld þar sem tvær stórar og stoltar fótboltaþjóðir berjast um að vera númer eitt í Evrópu.
Leikur dagsins:
19:00 Spánn - England
Athugasemdir