Aston Villa tekur á móti Liverpool á miðvikudagskvöldið í ensku úrvalsdeildinni og vildu stjórnendur Villa fá að færa leikinn aftur vegna mikils leikjaálags.
Úrvalsdeildin hefur hafnað þeirri beiðni og nú sér Unai Emery þjálfari fram á að spila 5 leiki á 14 dögum.
Aston Villa bað um að fá að færa leikinn aftur í mars þar sem liðið spilar aðeins einn úrvalsdeildarleik þann mánuðinn.
„Við bjuggumst við að fá þrjár vikur án leikja í miðri viku en núna verða þær bara tvær eftir að leikurinn gegn Liverpool var færður aftur. Af hverju er þetta svona? Leikjaáætlunin er algjörlega út úr kortinu," segir Emery.
„Við verðum að samþykkja þetta en þetta er ósanngjarnt gagnvart okkur. Við eigum mikið af leikjum í febrúar en lítið í mars. Eina ástæðan fyrir að við spilum meira en einn leik í mars er útaf því að við erum ennþá í FA bikarnum og Meistaradeildinni. Ég skil ekki hvernig við eigum bara einn deildarleik allan þann mánuðinn.
„Það er ekki okkar starf að raða leikjunum, það er annað fólk sem sér um það. Þetta fólk verður að bæta ákvarðanatökuna hjá sér því þetta gengur ekki svona."
Aston Villa á í erfiðleikum með að vera samkeppnishæft á öllum sviðum sérstaklega vegna meiðslalistans sem heldur áfram að stækka. Ollie Watkins, Pau Torres, Tyrone Mings, Matty Cash, Amadou Onana og Ross Barkley voru allir meiddir í sigrinum gegn Tottenham um síðustu helgi. Ezri Konsa meiddist í leiknum og þá þurftu miðjumennirnir Boubacar Kamara og Lamare Bogarde að fylla í skörðin í hjarta varnarinnar.
Aston Villa er í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar sem stendur, sex stigum frá Meistaradeildarsæti.
Athugasemdir