Kompany vill taka við Bayern - Isak og Brobbey efstir á blaði Arsenal - McKenna orðaður við Chelsea og Man Utd
banner
   mán 15. apríl 2024 21:29
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Víkingur marði Fram eftir umdeilda dómgæslu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fram 0 - 1 Víkingur R.
0-1 Erlingur Agnarsson ('64)

Lestu um leikinn: Fram 0 -  1 Víkingur R.

Fram tók á móti Íslandsmeisturum Víkings R. í eina leik kvöldsins í íslenska boltanum og úr varð hörkuviðureign sem bauð upp á lítið af marktækifærum.

Víkingur hafði betur að lokum og vann óverðskuldaðan sigur, en Framarar voru hundfúlir með dómgæsluna.

Heimamenn voru sterkari aðilinn í upphafi leiks og kom Alex Freyr Elísson boltanum í netið eftir mikinn atgang í vítateig Víkings í kjölfar hornspyrnu, en Jóhann Ingi Jónsson dómari dæmdi hendi á Fram og því var markið ekki gilt.

Fréttamaður Fótbolta.net var á vellinum og virtist viss um að boltinn hafi aldrei farið í hendi á leikmanni Fram, og því var dómurinn hjá Jóhanni líklegast rangur. Framarar vildu svo fá vítaspyrnu fyrir hendi á 24. mínútu en fengu ekki.

Víkingar vöknuðu til lífsins í kjölfarið og ríkti jafnræði með liðunum út hálfleikinn, en staðan var markalaus í leikhlé.

Arnar Gunnlaugsson gerði þrefalda skiptingu á liði Víkings í leikhlé og bauð síðari hálfleikurinn upp á meiri skemmtun en sá fyrri, þó að aðeins eitt mark hafi verið skorað.

Fram vildi fá vítaspyrnu á 61. mínútu en þremur mínútum síðar skoraði Erlingur Agnarsson á hinum endanum, eftir frábæra sókn sem endaði með glæsilegri stoðsendingu frá Pablo Punyed og laglegu marki frá Erlingi.

Framarar komust nálægt því að jafna metin tíu mínútum síðar en Alex Freyr skaut framhjá fyrir opnu marki, áður en þeir báðu um vítaspyrnu í þriðja sinn í leiknum en fengu ekki.

Í þetta skiptið átti vítaspyrnan líklegast rétt á sér, þar sem Guðmundur Magnússon var tekinn niður innan vítateigs, en ekkert dæmt.

Áhorfendur og leikmenn voru allt annað en sáttir með dómgæsluna á lokakaflanum en Fram tókst ekki að jafna þrátt fyrir mikinn sóknarþunga.

Niðurstaðan óverðskuldaður sigur Víkings sem er með sex stig eftir tvær umferðir, án þess að hafa fengið mark á sig.

Fram er með þrjú stig eftir sigur gegn Vestra í fyrstu umferð.
Athugasemdir
banner
banner