Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mán 15. ágúst 2022 23:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Atli Viðar ómyrkur í máli - „Lélegasta sem FH hefur sýnt í 20 ár"
Atli er áhyggjufullur.
Atli er áhyggjufullur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leiknum í gær.
Úr leiknum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH-ingar ætluðu í stríð í Vestmannaeyjum í gær, en töpuðu því stríði með miklum yfirburðum. Það er allt í rugli hjá FH sem er í bullandi fallbaráttu.

Sjá einnig:
Vandræði FH: Eitt sinn stórveldi en núna í baráttu fyrir lífi sínu

„Ég er búinn að hugsa þetta mikið í dag. Fyrri hálfleikurinn í gær er það lélegasta sem FH hefur sýnt í 20 ár," sagði Atli Viðar Björnsson, fyrrum sóknarmaður liðsins, í Stúkunni á Stöð 2 Sport í kvöld.

„ÍBV er komið í 2-0 eftir 12 mínútur. Áður en þeir skora fyrsta markið fá þeir tvö dauðafæri. Þjálfararnir hjá FH lýstu því yfir að þeir væru að fara til Eyja í stríð. Fyrir mér eru það mistök, þú skorar ekki á Eyjamenn í stríð. Þú verður að nálgast þennan leik öðruvísi, þú sást hvað þeir voru gíraðir og tilbúnir í þetta. Þeir settu bensín á bálið," sagði Atli.

Í viðtölum eftir leik í gær hömruðu FH-ingar á því að þeir hefðu talað um að mæta af krafti í þennan leik, að þeir vissu að það yrði alltaf erfitt að mæta ÍBV á þessum velli.

„Það sem maður hefur áhyggjur af... þeir töluðu um það allir eftir leik að þeir hefðu talað um það 20 sinnum um í klefa að mæta Eyjamönnum, þeir myndu mæta brjálaðir. Það er alltaf þannig ef þú mætir Eyjamönnum í Eyjum, þú þarft að 'matcha' þá í þessari baráttu. Áhyggjur mínar eru þá hvað ætla þeir að segja fyrir næsta leik? Ef þetta virkar ekki að mótívera menn til að mæta þeim í baráttunni?" sagði Baldur Sigurðsson, fyrrum miðjumaður FH.

„En fannst þér þeir sannfærandi? Þeir sem komu og töluðu um þetta eftir leik?" spurði Atli Viðar. „Trúðu þeir því sjálfir að þeir væru að fara í stríð sem þeir myndu vinna?"

„Úlfur Ágúst (Björnsson) átti góða innkomu í gær og var líflegur. Hann og Oliver Heiðarsson eru þeir sem geta farið með höfuðið á herðunum eftir leik. Aðrir eiga að skammast sín. Eyjamenn eiga hrós skilið, það er skýrt plan þar," sagði Atli.

Atli tók fyrir líkamstjáningu eldri og reyndari leikmanna FH í leiknum. „Þeir verða að breyta líkamstjáningu sinni og hvernig þeir koma fram. Ég hef pínulítið á tilfinningunni að þeir séu búnir að gefast upp, þeir hafi ekki trú á að þeir geti ekki snúið þessu við," sagði fyrrum sóknarmaðurinn sem er mjög áhyggjufullur yfir stöðu mála.
Athugasemdir
banner
banner