Liverpool reynir við Pedro næsta sumar - PSG til í að opna veskið fyrir Isak - Nico Williams eftirsóttur
   fim 16. desember 2021 09:00
Brynjar Ingi Erluson
„Ef ég stíg inn á Laugardalsvöll þá er búið að setja á mig 3 í einkunn"
Viðar Örn Kjartansson
Viðar Örn Kjartansson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenski landsliðsframherjinn Viðar Örn Kjartansson fór aðeins yfir landsliðsumræðuna í viðtali við Fótbolta.net í gær en hann segir að gagnrýnin sé oft á köflum óréttmæt.

Viðar á 32 A-landsleiki að baki og 4 mörk. Hann hefur oft fengið neikvæða gagnrýni í fjölmiðlum fyrir að skora ekki nógu mikið af mörkum þrátt fyrir að raða inn mörkum hjá félagsliðum.

Samkeppnin hefur verið erfið í gegnum árin en Alfreð Finnbogason og Kolbeinn Sigþórsson hafa verið á undan honum í goggunarröðinni.

Hann telur gagnrýnina ekki sanngjarna og benti meðal annars á fyrri hálfleikinn gegn Rúmeníu á Laugardalsvelli þar sem hann skilaði ágætu dagsverki þrátt fyrir að hafa ekki verið í standi til að spila en hann var að jafna sig eftir erfið meiðsli.

„Ef ég stíg inn á Laugardalsvöll með landsliðinu þá er búið að setja á mig 3 í einkunn á hvaða miðli sem er. Skiptir engu máli hvar það er og það er bara fast," sagði Viðar Örn.

„Mér fannst ég persónulega mjög góður í fyrri hálfleiknum á móti Rúmeníu og sá sem sér það ekki þarf að láta skoða sig. Ég var ekki góður á móti Makedóníu eins og allir í liðinu held ég."

„Mér er alveg sama hvað fólk segir og það skiptir mig engu máli og ef þú ert með gagnrýni komdu þá með hana. Ég kem og er búinn að spila tvo leiki, ekki búinn að hlaupa í þrjá mánuði og æfa í tvær vikur, í engu leikstandi og enn smá haltrandi"

„Aðstæður í landsliðinu voru ekki góðar og ég mæti og svara kallinu. Mér fannst þetta ganga fínt á móti Rúmeníu og fólk sem segir að ég hafi verið lélegur þarf að láta athuga sig líka. Við áttum miklu meira skilið úr þeim leik en svo kom Norður-Makedóníuleikurinn og hann var hörmulegur nema kannski síðustu tuttugu mínúturnar."

„Ég var bara ekki í formi til að spila þessa leiki og tala nú ekki um að það var búið að segja í viðtali að þú ert framherji númer fjögur, þá kemur þú ekkert með kassann út á Laugardalsvöll. Lélegur, góður eða hvort sem ég var, þá var þetta ekki alveg uppskriftin að því að spila vel."


Hann reiknaði aldrei með því að byrja leikinn gegn Rúmeníu, sérstaklega eftir að hafa ekki verið valinn í upprunalega hópinn.

„Ég reiknaði aldrei með því. Ég átti ekki einu sinni að vera í hóp en auðvitað gerir maður það bara. Á æfingum sýndist mér eins og ég væri að fara að spila. Það er ekkert til að búa til súper sjálfstraust fyrir framherja en maður tekur öllu sem kemur í fótbolta. Það er svolítið furðulegt að fara úr því að vera ekki valinn og byrja síðan," sagði hann ennfremur.
Samningsbundinn en á eitt ævintýri eftir „í Kóreu eða eitthvað"
Athugasemdir
banner
banner