mán 19. október 2020 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Samningur Aguero að renna út: Hann þarf að sanna sig
Mynd: Getty Images
Argentínski sóknarmaðurinn Sergio Agüero á tæpt ár eftir af samningi sínum við Manchester City. Hann er 32 ára gamall og hefur skorað 254 mörk á níu árum hjá félaginu.

Hann missti af stórum hluta síðasta tímabils vegna meiðsla en gerði þó 23 mörk í 32 leikjum í öllum keppnum, þar af 16 í 24 úrvalsdeildarleikjum.

Josep Guardiola, stjóri Man City, var spurður út í framtíð Agüero um helgina og sagði hana velta á sóknarmanninum sjálfum. Félagið sé tilbúið til að semja við hann geti hann sannað að hann sé ennþá sami leikmaðurinn og fyrir meiðslin.

„Sergio verður, rétt eins og allir aðrir hjá félaginu, að sýna hvers vegna hann á skilið nýjan samning frá félaginu. Hann þarf að spila vel, skora mörk og vinna leiki. Þegar réttur tími rennur upp mun félagið taka ákvörðun í samráði við mig," sagði Guardiola.

„Ef hann heldur áfram að skila sömu frammistöðum og áður þá leikur enginn vafi á að við munum reyna að semja. Hann er einstakur leikmaður, gríðarlega mikilvægur fyrir félagið og dáður af stuðningsmönnum.

„Hann var meiddur í fjóra mánuði og leiðin til baka er erfið. Hann þarf að byrja að æfa af krafti og skora mörk, það skiptir mestu máli. Við söknuðum Aguero mikið á síðustu leiktíð og það eru frábærar fréttir að hann sé kominn aftur úr meiðslum."


Aguero tók þátt í 1-0 sigri Manchester City gegn Arsenal um helgina. Það var fyrsti leikurinn sem hann spilaði síðan í júní.
Athugasemdir
banner
banner