Valur hefur gengið frá kaupum á Stefáni Gísla Stefánssyni frá Fylki en þetta kemur fram í tilkynningu félagsins í dag. Stefán skrifaði undir fimm ára samning við Hlíðarendafélagið.
Stefán er 18 ára gamall varnarmaður sem á 21 leik að baki með Fylki.
Hann spilaði sinn fyrsta leik með meistaraflokki Fylkis árið 2023 og lék síðan níu leiki í Bestu deildinni á síðustu leiktíð.
Valur gekk í dag frá kaupum á Stefáni og skrifaði hann undir fimm ára samning.
„Þessi samningur sem við erum að gera við Stefán Gísla er dæmi um það sem við í stjórninni hjá Val viljum leggja áherslu á. Þarna er á ferðinni strákur sem við höfum fylgst með lengi og tikkar í mörg box hjá okkur. Við sjáum það bæði á öllum tölum og hvernig karakter hann er að þarna er leikmaður sem passar fullkomlega inn í þá stefnu sem við erum að vinna eftir. Það er ekki tilviljun að við gerum svona langan samning við Stefán – við trúum virkilega á hann og viljum að hann fái að vaxa í því faglega umhverfi sem við erum að skapa,“ sagði Breki Logason, formaður meistaraflokksráðs karla hjá Val.
„Við höfum ekki séð marga svona samninga hjá okkur í Val áður, við gerðum reyndar fimm ára samning við Andi Hoti á sömu forsendum í síðasta mánuði, en við teljum þetta nauðsynlegt fyrir félagið til lengri tíma. Við höfum stigið skref í vetur sem eru hluti af þessari vegferð og má þar nefna ráðninguna á Arnóri Smárasyni sem starfar sem tæknilegur ráðgjafi okkar. Þá réðum við inn Chris Brazell sem við fengum sérstaklega til liðs við okkur til að vinna markvisst með okkar efnilegustu leikmönnum. Hann er hluti af þjálfarateymi meistaraflokks og er með 2. flokkinn hjá okkur. Við höfum verið að leggja áherslu á bæði styrk og tækni þegar kemur að yngri leikmönnum en ekki síður verið að styðja þá í öðrum þáttum eins og hugarþjálfun, mataræði og öðru sem er það sem skilur oft á milli. Stefán Gísli er hluti af þessari vegferð sem við vonumst til að muni skila okkur sterkari leikmönnum og enn sterkara félagi,“ segir Breki.
Stefán er í skýjunum með skiptin og getur ekku beðið eftir því að koma sér af stað með liðinu.
„Það er ekki nokkur spurning að Valur er flottur klúbbur með mikla sögu og metnað til þess að vinna. Það er samt ekki endilega það sem heillaði mig heldur fann ég það í samtölum mínum við forsvarsmenn klúbbsins núna um páskana að hugmyndir okkar fara saman. Það er verið að hugsa hlutina til lengri tíma og þetta er ákveðin vegferð sem ég ætla að vera hluti af. Hér í Val ætla ég að verða enn betri leikmaður og taka mikilvæg skref á mínum ferli sem fótboltamaður. Ég er afskaplega ánægður með þessa ákvörðun og get ekki beðið eftir því að byrja að sanna mig,“ sagði Stefán við undirskrift.
Stefán er fastamaður í U19 ára landsliði Íslands en hann á alls 19 leiki fyrir yngri landsliðin, þar af átta leiki fyrir U19.
Athugasemdir