Liverpool reynir við Pedro næsta sumar - PSG til í að opna veskið fyrir Isak - Nico Williams eftirsóttur
   þri 20. september 2022 20:00
Arnar Laufdal Arnarsson
Arftaki Tomas Rosicky mætir til Íslands
Adam Karabec.
Adam Karabec.
Mynd: Getty Images
Íslenska 21 landsliðið mætir Tékklandi á föstudaginn kemur klukkan 16:00 á Víkingsvelli í fyrri viðureign liðanna en með sigri í þessu einvígi tryggir Ísland sér sæti á EM U21 árs.

Í tékkneska liðinu er leikmaður sem tékkneska þjóðin vonist til að verði arftaki Tomas Rosicky sem gerði garðinn frægan hjá Arsenal og Dortmund á sínum ferli en lagði skóna á hilluna 2017.

Sá leikmaður heitir Adam Karabec og er hann 19 ára gamall miðjumaður, hann spilar með Sparta Prag í heimalandinu, líkt og Rosicky gerði á sínum yngri árum. Sparta Prag seldi í sumar sinn verðmætasta leikmann, Adam Hlozek en sá ungi sóknarmaður var seldur til Bayer Leverkusen á 13 milljónir evra og kæmi ekki á óvart ef Karabec yrði fljótlega seldur til stærra félags næsta sumar. Karabec er talinn vera mest spennandi miðjumaður sem sést hefur síðan að Rosicky skaust á sjónarsviðið á byrjun 21. aldarinnar.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Karabec spilað 94 leiki fyrir Sparta Prague og skorað í þeim leikjum 7 mörk og skilað 6 stoðsendingum, einnig hefur hann leikið 13 landsleiki fyrir U21 árs landsliðið og skilað þar 4 mörkum og 4 stoðsendingum. Þetta er leikmaður sem býr yfir gríðarlega góðri sendingagetu og með frábært auga fyrir spili og eiga andstæðingar oft í miklum vandræðum með að sjá til þess að Karabec stjórni ekki leiknum upp á eigin spítur.

Það er gaman að segja frá því að það var einmitt Tomas Rosicky sjálfur sem bauð Karabec að mæta á æfingar með aðalliði Sparta Prague árið 2020 en Rosicky starfar sem yfirmaður fótboltamála hjá tékkneska stórveldinu. Það verður gaman að sjá okkar íslensku leikmenn kljást við Karabec í þessum mikilvæga leik núna á föstudaginn.

Þess má einnig geta, til að bæta við í lokin þá er mjög spennandi varnarmaður í liði Tékklands en það er 19 ára varnarmaðurinn Martin Vitik sem er metinn á 2.2 milljónir evra inn á síðunni Transfermarkt.com og verður einnig áhugavert að sjá okkar fremstu sóknarmenn takast á við þennan stóra og stæðilega varnarmann.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner