Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   sun 20. október 2019 07:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Sandra María: Heppnin með okkur í vor - Markmiðið að gera betur en í fyrra
Farið yfir tímabilið sem lauk í vor og byrjunina á þeirri leiktíð sem hófst í haust
Mynd: Mirko Kappes
Mynd: Mirko Kappes
Með fyrirliðabandið hjá Þór/KA.
Með fyrirliðabandið hjá Þór/KA.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Sandra María ásamt Söru Björk.
Sandra María ásamt Söru Björk.
Mynd: Mirko Kappes
Sandra María Jessen er á mála hjá Bayer Leverkusen í þýsku Bundesliga. Hún gekk í raðir félagsins í annað sinn í ársbyrjun en hún hafði áður verið á láni hjá félaginu.

Fótbolti.net hafði sambandi við Söndru í gær og spurðist fyrir um stöðu hennar hjá félaginu en hún var fjarverandi þegar Leverkusen tapaði gegn Hoffenheim á föstudaginn. Sandra var fjarri góðu gamni vegna veikinda en segist öll vera að hressast.

Sandra hefur ekki fengið að spila 90 mínútur með Leverkusen í deildinni á leiktíðinni en spilaði allan leikinn og skoraði mark í bikarsigri. Hún hefur verið að spila á köntunum sem og í bakverðinum. Sandra var spurð út í hvers vegna hún fengi ekki að spila meira.

„Í hreinskilni sagt þá er bara ótrúlega mikil samkeppni innan liðsins, sérstaklega hvað varðar fremstu fjórar stöðurnar á vellinum. Við erum með mikið af öflugum leikmönnum sem spila með sínu landsliði í Ungverjalandi, Króatíu, Bosníu og síðan tvær með U19 liði Þýskalands."

„Auk þess vorum við að fá tvo nýja leikmenn sem hafa verið að spila þessa stöðu líka, eina sænska og eina þýska. Þetta er því stór og flottur hópur af leikmönnum og þjálfarinn er mjög duglegur að rótera í liðinu. Hann heldur öllum leikmönnum á tánum og erum við allar að fá að spila. Mér finnst þetta skemmtilegt og krefjandi verkefni, en að sjálfsögðu er markmiðið að ná að festa sig í liðinu."

Leverkusen er sem stendur með sex stig eftir sjö umferðir. Sandra var spurð út í gengi liðsins sem og væntingar liðsins fyrir þessa leiktíð. Hún segir liðið hafa leikið betur gegn toppliðunum og markmiðin séu að gera betur en í fyrra.

„Við áttum mjög sterka byrjun á tímabilinu og unnum bæði Freiburg og Bayern Munchen, en höfum nú aðeins dalað og ekki náð að fylgja því eftir. Við fórum mögulega að gera okkur of miklar væntingar og svekktum okkur á því sem var ekki að fúnkera."

„Núna eru framundan mikilvægir leikir gegn liðum sem eru í neðri hluta deildarinnar. Þá er mikilvægt að fara að safna einhverjum punktum aftur. Hingað til höfum við þó verið að spila betur á móti toppliðunum en þeim leikjum, sem við þurfum að breyta. Markmiðið er að gera betur en í fyrra og að halda okkur um miðja deild."


Sandra gekk í raðir Leverkusen eins og fyrr segir í byrjun árs. Leverkusen var í 10. sæti deildarinnar og liðið var í mikilli fallbaráttu allt til loka.

„Ég vissi að ég væri að fara út í mikla fallbaráttu þegar ég skrifaði undir samninginn. Liðið var mjög ungt og reynslulítið en mér fannst spennandi að taka þátt í þeirri upbyggingu sem var framundan. Hver leikur á tímabilinu var bárátta um halda okkur í deildinni og því hverju unnu stigi fagnað innilega."

„Fyrir leikin á móti Essen (lokaleikinn í deildinni) var útlitið um áframhald í deildinni svart, við þurftum ekki einungis að vinna Essen sem var eitt at toppliðunum, heldur þurfum við að treysta á að Werden Bremen fengu ekkert stig á móti Freiburg. Eftir ótrúlega baráttu og sigur hjá okkur í þeim leik var heppnin með okkur þar sem Bremen töpuðu sínun leik. Niðurstaðan því áframhald í deildinni."


Sandra María ber ættarnefnið Jessen sem tengir hana við Þýskaland. Hjálpuðu þýsku tengslin að koma henni út?

„Þýsku tengslin hjálpuðu mér í raun ekki að komast út. Þetta hófst allt með því að Þór/KA bauð mér og Lillý Rut að fara á reynslu til Leverkusen sem smá verðlaun fyrir það sem við höfðum verið að gera með Þór/KA. Í næsta glugga eftir að við fórum höfðu þau samband við mig og buðu mér að koma út á lánssamning á meðan preseasonið var á Íslandi, þar sem ég var ennþá samningsbundin Þór/KA. "

„Eftir þetta hálfa season fór ég svo aftur heim til Íslands en ákvað síðan að skella mér aftur út til þeirra í byrjun árs, eftir að þau heyrðu í mér aftur. Nú er ég samningsbundin til enda júní 2020."


Wolfsburg, liðið sem Sara Björk Gunnarsdóttir leikur með, er ógnarsterkt og virðist ósnertanlegt á toppi deildarinnar. Sandra var spurð út í toppliðið.

„Það er frekar augljóst að Wolfsburg liðið er á öðrum klassa en flest lið deildarinnar. Þær eru í raun bara heimsklassa lið. Að sjálfsögðu er einunigs brotabrot búið af deildinni en þær eru einfaldlega svo sterkar að ég tel ekki miklar líkur á því að þær fari að hleypa öðrum liðum eitthvað nálægt sér. En þær mega auðvitað ekki gefa eftir því það er nóg eftir af þessari deild og það eru lið sem geta strítt þeim."

Sandra var að lokum spurð út í stöðuna á Þór/KA en liðið réð Andra Hjörvar Albertsson til starfa þegar Halldór Jón Sigurðsson, Donni, hætti með liðið eftir nýafstaðna leiktíð.

„Þór/KA er og verður alltaf mitt félag og mín fjölskylda. Því mun ég alltaf fylgjast með þeim. Nú er mikil uppbygging í gangi og margir leikmenn að fá stærri hlutverk en þeir hafa fengið áður innan liðsins. Það er jákvætt og leikmenn hafa staðið sig vel. Það var augljóslega smá vonbrigði að gera ekki betur í lok sumars en liðið sýndi á köflum að innan liðsins eru mikil gæði og að það eigi aldrei að afskrifa Þór/KA. Ég hef mikla trú á að Andri sé rétt manneskja í að vinna með þennan hóp og gera Þór/KA að ennþá sterkara liði. Hann hefur ýmsa kosti sem henta þessum hópi og ekki vantar uppá metnaðinn. Hann er flottur í þetta starf."
Athugasemdir
banner
banner
banner