Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
   mán 21. október 2013 13:30
Alexander Freyr Tamimi
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Bjóðum Króata velkomna til helvítis
Alexander Freyr Tamimi
Alexander Freyr Tamimi
Íslenskir stuðningsmenn voru frábærir í Noregi.
Íslenskir stuðningsmenn voru frábærir í Noregi.
Mynd: Fótbolti.net - Árni Torfason
Modric og félagar þurfa að vera slegnir út af laginu.
Modric og félagar þurfa að vera slegnir út af laginu.
Mynd: Getty Images
Stákarnir okkar eru tveimur leikjum frá HM 2014.
Stákarnir okkar eru tveimur leikjum frá HM 2014.
Mynd: Fótbolti.net - Árni Torfason
Mario Mandzukic, framherji Króata og Bayern, þarf að fá að heyra alvöru læti.
Mario Mandzukic, framherji Króata og Bayern, þarf að fá að heyra alvöru læti.
Mynd: Getty Images
Stuðningurinn í síðasta heimaleiknum gegn Kýpur var frábær.
Stuðningurinn í síðasta heimaleiknum gegn Kýpur var frábær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Árið 1993 gengu leikmenn Manchester United inn á Ali Sami Yen, heimavöll Galatasaray, til að spila gegn tyrkneska liðinu í Meistaradeildinni.

Þeir voru skíthræddir. Allt frá því að þeir lentu á flugvellinum biðu þeirra skilti sem sögðu að þetta væru þeirra síðustu 48 klukkustundir á lífi. Inni á vellinum var þetta ekki mikið skárra, þarna voru borðar sem buðu leikmenn „velkomna til helvítis“ og allt var gert til að láta þá líða sem verst inni á vellinum.

Fyrir leik var sungið og trallað og blásið í lúðra fyrir utan hótelið þeirra svo þeir næðu engum svefni. Það var hringt á fullu inn á hótelherbergi Peter Schmeichel alla nóttina til að trufla svefn hans. Steinum var kastað í rútuna á leiðinni á völlinn. Leikmenn Manchester United upplifðu svo hatrammt andrúmsloft allt frá því að þeir lentu í Istanbúl að það sló þá virkilega út af laginu.

Af hverju er ég að rifja upp þessa sögu? Aðallega bara að gamni.

Nú er ljóst að Ísland mætir Króatíu í umspili um sæti á HM 2014 í Brasilíu. Staðreyndin er sú að við erum einungis tveimur leikjum gegn þessu liði frá því að komast á okkar fyrsta heimsmeistaramót. Við erum svo grátlega nærri, en samt er ennþá svo langt í land – Tveir virkilega erfiðir leikir, og sá fyrri verður á Laugardalsvelli þann 15. nóvember.

Ég er ekki að segja að við eigum að trufla svefn Króata. Ég er ekki að leggja til að við eigum að kasta grjóti í liðsrútuna þeirra. En ég er að segja, og það með þessu fáránlega ýkta dæmi hér að ofan, að við eigum og verðum að slá þá út af laginu.

Vissulega tekur Laugardalsvöllur bara 10.000 manns. Þessir leikmenn spila á miklu stærri völlum og í miklu hatrammara andrúmslofti. Þegar Luka Modric spilar með Real Madrid á Nývangi fær hann auðvitað að heyra það. Hinn skeptíski myndi segja að það sé ansi lítið sem við getum gert til að slá svona reyndar stórstjörnur á borð við hann og til dæmis Mario Mandzukic út af laginu.

En Guð veit að við getum reynt! Landsliðsþjálfari Króata glotti þegar hann sá að hans menn myndu mæta Íslandi. Óskamótherjinn, seinni leikur á heimavelli – þvílíkur draumur fyrir þá!

Okkar verkefni er að breyta þessum draumi í martröð. Það verður að sjá til þess að þegar Ísland fer út til Króatíu í seinni leikinn sé einvígið ennþá galopið, og helst okkur í hag!

Auðvitað skiptir það langmestu máli hvað þeir 11 leikmenn sem spila inni á vellinum gera. En við getum orðið 12. maðurinn, sem ýtir þeim áfram, ber á Króötunum, sköpum hatrammt andrúmsloft fyrir gestina.

Þetta er ekki í okkar menningu. Við erum ekki Tyrkir, eða Austur-Evrópuþjóð, þar sem það er í menningu stuðningsmanna að skapa ótrúleg læti og láta gestina óska þess að þeir komist burt hið snarasta.

En það þýðir ekki að við getum ekki öll kyngt sýndarmennskunni, og stoltinu ef svo má að orði komast, og umbreyst í einhvern svakalegan stuðningsmann þegar við mætum á Laugardalsvöllinn.

Það munu miklu færri áhorfendur komast að en vilja þann 15. nóvember. Það eru einungis tæplega 10.000 miðar í boði og ég er viss um að allavega 25.000 manns, og líklega fleiri, vilja komast á þennan leik.

Það er því skylda þess sem kaupir miða að nýta þau forréttindi sem því fylgja, skrifa undir eins konar sáttmála, að mæta á leikinn sem stuðningsmaður en ekki áhorfandi.

Ég hitti tvo stuðningsmenn Red Star frá Serbíu þegar liðið heimsótti ÍBV í Evrópudeildinni. Fínir náungar. Þeir sögðu að þegar á heimaleiki Red Star er komið skipti engu máli hvort þú sért lögfræðingur, læknir, háskólaprófessor eða vísindamaður – þegar á völlinn er komið umbreytast allir í stuðningsmenn.

Við heyrðum það gegn Kýpur að það getur myndast frábær stemning á Laugardalsvelli. Við þurfum bara að taka þetta skrefinu lengra, eða jafnvel nokkrum skrefum lengra. Við þurfum að öskra okkur hás allan völlinn, styðja strákana okkar heils hugar, jafnvel baula aðeins á Króatana – búa til gryfju.

10.000 manns geta vel látið í sér heyra ef allir taka undir. Ekki bara Tólfan, sem hefur verið stórkostleg, heldur líka lögfræðingarnir, læknarnir, kennararnir, stjórnmálamennirnir og allir þeir sem mæta á völlinn.

Við vitum hversu ótrúlega nærri takmarkinu við erum. Viljum við ekki öll leggja okkar lóð á vogaskálarnar og hjálpa strákunum að komat alla leið?

Bjóðum Króata velkomna til helvítis.
Athugasemdir
banner