Everton ætlar að fá Chukwueze - Man Utd reynir að sannfæra Davies - Arsenal gæti fengið Vlahovic á góðu verði
banner
   mán 21. október 2024 11:55
Innkastið
„Galinn tímapunktur til að hrófla við markmannsstöðunni“
Pálmi Rafn Arinbjörnsson
Pálmi Rafn Arinbjörnsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingvar Jónsson var geymdur heill á bekknum.
Ingvar Jónsson var geymdur heill á bekknum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Athygli hefur vakið hversu marga leiki hinn ungi Pálmi Rafn Arinbjörnsson hefur fengið í marki Víkings en Arnar Gunnlaugsson hefur verið duglegur að gefa honum leiki.

Þrátt fyrir að Ingvar Jónsson væri heill var Pálmi látinn spila leikinn mikilvæga gegn ÍA um helgina og var hann í miklu brasi, meðal annars með fyrirgjafir inn í teiginn.

„Eftir okkar heimildum þá er nákvæmlega ekkert að Ingvari Jónssyni. Arnar hefur tekið þá ákvörðun að hvíla Ingvar í tveimur síðustu leikjum því Pálmi var í markinu gegn Stjörnunni í síðasta leik líka. Mér finnst þetta óskiljanlegt," segir Valur Gunnarsson í Innkastinu.

„Það er ekkert verið að hvíla hann, þetta er bara eitthvað þjálfaralimbó. Ingvar var bara klár í að spila leikinn. Arnar talar bara um að hann vilji að ungir leikmenn spili en þetta er mjög skrítið því liðinu líður miklu betur og fær miklu fleiri stig með Ingvar í markinu," segir Elvar Geir.

„Það sást á Skaganum að vörn Víkings leið sjáanlega mun verr út með Pálma í markinu. Hann er ungur markvörður sem virkar mjög óöruggur og þeir eru mjög vanir Ingvari. Þetta er galinn tímapunktur til að vera að hrófla í markmannsmálunum. Það hefur aldrei virkað að rótera markvörðum," segir Guðmundur Aðalsteinn.

Hann lærir af þessu
Arnar viðurkenndi sjálfur að Pálmi hefði ekki átt góðan leik á Skaganum en það kom að lokum ekki að sök, því Víkingur vann leikinn á dramatískan hátt eins og allir lesendur vita.

„Þetta var erfiður leikur fyrir Pálma en hann lærir af þessu. Við erum að hreykja okkur af því að gefa ungum leikmönnum tækifæri og ekki bara í leikjum sem skipta engu máli. Þetta var alvöru leikur, hann lærir af þessu og kemur sterkari til baka. Það er það sem Víkingur snýst um, ekki bara að spila elstu og bestu mönnunum. Við þurfum að sjá til þess að leikmenn okkar vaxi og dafni. Hann gerði mistök en lærir," sagði Arnar eftir leik.

Reikna má með því að Ingvar verji mark Víkings í komandi leikjum, Evrópuleiknum gegn Cercle Brugge á fimmtudag og svo úrslitaleiknum sjálfum gegn Breiðabliki á sunnudaginn.
Innkastið - Stjórnlaust hringleikahús
Besta-deild karla - Efri hluti
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Víkingur R. 26 18 5 3 68 - 30 +38 59
2.    Breiðablik 26 18 5 3 60 - 31 +29 59
3.    Valur 26 11 8 7 60 - 41 +19 41
4.    Stjarnan 26 11 6 9 48 - 41 +7 39
5.    ÍA 26 11 4 11 48 - 41 +7 37
6.    FH 26 9 7 10 41 - 47 -6 34
Athugasemdir
banner
banner
banner