Atlético Madrid 3 - 1 Real Madrid
1-0 Alvaro Morata ('4)
2-0 Antoine Griezmann ('18)
2-1 Toni Kroos ('35)
3-1 Alvaro Morata ('46)
Atletico Madrid skellti nágrönnum sínum í Real Madrid er liðin mættust í stórleik helgarinnar í spænska boltanum.
Heimamenn fóru gríðarlega vel af stað og var Alvaro Morata búinn að skora eftir fjögurra mínútna leik, þegar hann skallaði frábæra fyrirgjöf frá Samuel Lino í netið.
Antoine Griezmann tvöfaldaði forystuna stundarfjórðungi síðar með öðrum skalla, í þetta sinn eftir fyrirgjöf frá Saúl Niguez, en Toni Kroos minnkaði muninn með laglegu skoti utan teigs.
Staðan var 2-1 fyrir Atletico í leikhlé og var Morata búinn að setja þriðja markið strax í upphafi síðari hálfleiks. Enn eina ferðina skoruðu heimamenn með skallamarki eftir fyrirgjöf, en varnarmenn Real Madrid sofnuðu alltof oft á verðinum og gleymdu sér í dekkningunni.
Real reyndi að minnka muninn en tókst ekki að skapa sér mikið gegn skipulögðum lærisveinum Diego Simeone. Verðskuldaður sigur Atletico virtist aldrei vera í hættu.
Real er í þriðja sæti eftir þetta tap, með 15 stig eftir 6 umferðir.
Atletico er í fimmta sæti, með 10 stig og einn leik til góða.