Man City horfir til Gyökeres - Xavi vill taka Raphinha með sér - Man Utd gæti lánað Antony
   fim 24. október 2024 16:26
Elvar Geir Magnússon
Sambandsdeildin: Víkingur skrifaði söguna með stórkostlegum sigri
Danijel Djuric var mjög áberandi í leiknum í dag.
Danijel Djuric var mjög áberandi í leiknum í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Ari Sigurpálsson fagnar.
Ari Sigurpálsson fagnar.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Víkingur R. 3 - 1 Cercle Brugge
0-1 Kazeem Olaigbe ('16 )
1-1 Ari Sigurpálsson ('17 )
1-1 Danijel Dejan Djuric ('45 , misnotað víti)
2-1 Danijel Dejan Djuric ('76 )
3-1 Gunnar Vatnhamar ('84 )
Lestu um leikinn

Víkingur er fyrsta íslenska félagsliðið til að vinna leik í aðalkeppni í Evrópu en liðið vann belgíska liðið Cercle Brugge á Kópavogsvelli fyrir framan 1.200 áhorfendur.

Leikurinn fór nokkuð rólega af stað en Cercle Brugge komst yfir á 16. mínútu þegar boltinn var hirtur af Danijel Duric og gestirnir refsuðu með marki. Víkingur svaraði strax með glæsilegu marki Ara Sigurpálssonar mínútu síðar.

„Ari æðir upp vinstri kantinn, sker inn á hægri og neglir boltanum í samskeytin fjær, litla markið! Víkingar svara strax. Fyrsta mark Víkings í Sambandsdeildinni!" skrifaði Kári Snorrason fréttamaður Fótbolta.net í textalýsingu frá leiknum.

Í lok fyrri hálfleiks var brotið á Gísla Gottskálki Þórðarsyni og eftir VAR skoðun var dæmd vítaspyrna. Danijel fór á punktinn en brást bogalistin, skaut í tréverkið. Staðan í hálfleik hnífjöfn 1-1.

Víkingar voru óragir og spiluðu flottan fótbolta. Danijel bætti upp fyrir vítaklúðrið þegar hann kom Víkingi yfir á 76. mínútu eftir hraða sókn og fyrirgjöf Erlings Agnarssonar.

Gunnar Vatnhamar skoraði svo á 84. mínútu og kom Víkingi 3-1 yfir eftir hreint magnaða fyrirgjöf Gísla Gottskálks sem átti hreint frábæran leik í dag.

Fleiri urðu mörkin ekki og Víkingar fagna sögulegum sigri eftir fyrirmyndar frammistöðu. Liðið er í baráttunni um að komast í útsláttarkeppnina en átta efstu liðin í Sambandsdeildinni fara beint í 16-liða úrslit en liðin í sætum 9-24 komast í umspil.

Það gefst þó ekki mikill tími til fagnaðarláta hjá Víkingum eftir sigurinn í dag því að á sunnudag er komið að úrslitaleiknum gegn Breiðabliki um Íslandsmeistaratitilinn.
Athugasemdir
banner
banner