Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   fös 25. október 2024 14:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Umfjöllun
Rýnt í úrslitaleik Víkinga og Blika - Lítið sem skilur liðin að
Damir Muminovic og Viktor Örn Margeirsson hafa lengi spilað saman í vörn Blika.
Damir Muminovic og Viktor Örn Margeirsson hafa lengi spilað saman í vörn Blika.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gísli Gottskálk er uppalinn Bliki sem hefur leikið frábærlega með Víkingum eftir meiðsli Pablo Punyed.
Gísli Gottskálk er uppalinn Bliki sem hefur leikið frábærlega með Víkingum eftir meiðsli Pablo Punyed.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ari Sigurpálsson hefur átt stórkostlegt sumar.
Ari Sigurpálsson hefur átt stórkostlegt sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak Snær Þorvaldsson hefur gæðin til að skipta sköpum.
Ísak Snær Þorvaldsson hefur gæðin til að skipta sköpum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er risaleikur í Bestu deild karla þegar Víkingur og Breiðablik eigast við á sunnudag. Þetta er leikurinn sem mun skera úr um það hvaða lið verður Íslandsmeistari. Það er óhætt að segja að um sé að ræða einn stærsta leik Íslandssögunnar en þessi tvö lið hafa eldað grátt silfur síðustu árin og rígurinn er mikill.

Víkingar eru með yfirhöndina þar sem þeir eru með betri markatölu en liðin eru jöfn að stigum. Það er svo sannarlega ekki mikið sem skilur þessi lið að og því áhugavert að bera þau saman fyrir stóru stundina.

Markvarslan: Víkingur R.
Það er ekkert rosalega mikill munur hérna. Báðir aðalmarkverðir liðanna hafa verið frábærir í sumar, Ingvar Jónsson hjá Víkingi og Anton Ari Einarsson hjá Breiðabliki. Ef Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, sleppir því að hrófla í markvarðarstöðunni - eins og hann hefur verið að gera svolítið í sumar - þá hafa Víkingar hins vegar vinninginn hérna en með litlum mun.

Vörnin: Breiðablik
Hérna eru tvö sterkustu varnarlið deildarinnar að mætast; Víkingar hafa fengið á sig 30 mörk á meðan Breiðablik hefur fengið á sig 31 mark. En það er óvissa í vörn Víkinga. Oliver Ekroth, sem er á sínum degi besti varnarmaður deildarinnar, er tæpur fyrir leikinn og það er óvíst hvort að hann geti tekið þátt. Það er svo sannarlega högg fyrir ríkjandi Íslandsmeistara. Blikar eru með frábært miðvarðapar og öfluga bakverði. Kristinn Jónsson hefur komið sterkur inn á þessari leiktíð og leikið virkilega vel í vinstri bakverðinum hjá Blikum. Þegar það er óvissa með Ekroth, þá sveiflast pendúllinn örlítið í átt að Blikum en annars er þetta gríðarlega jafnt.

Miðjan: Breiðablik
Þarna er líka mikið jafnræði með liðunum. Þetta er erfitt. En Blikar eru líklega með besta leikmann Íslandsmótsins í sumar inn á sinni miðju: Höskuld Gunnlaugsson. Þar er líka Viktor Karl Einarsson sem hefur átt frábært sumar. Víkingar eru án Pablo Punyed og Matthíasi Vilhjálmssyni, en það tekur svolítið frá þeirra miðju. Þó hefur Gísli Gottskálk Þórðarson komið frábærlega inn og Viktor Örlygur Andrason hefur verið traustur. Aron Elís Þrándarson er stórkostlegur miðjumaður en hann hefur verið mikið í því að spila fremst á vellinum að undanförnu. Með Höskuld og Viktor Karl, þá hafa Blikar vinninginn í dag en það er ekki mikið sem skilur að.

Sóknin: Víkingur R.
Að lokum er það sóknarleikurinn. Víkingar hafa í sumar skorað 68 mörk á meðan Blikar hafa gert 60. En aftur, þá vantar líklega lykilmann í fremstu víglínu hjá Víkingi. Valdimar Þór Ingimundarson er mjög ólíklegur til að spila og það er högg. Eftir því sem hefur liðið á tímabilið, þá hefur Valdimar verið stórkostlegur. En Víkingar geta fyllt í hans skarð. Þeir eru með tvo gríðarlega spræka framherja í Ara Sigurpálssyni og Danijel Dejan Djuric sem geta sprengt upp leiki. Þeir eru með hinn trausta Erling Agnarsson og svo eru þarna Nikolaj Hansen, Aron Elís og Helgi Guðjónsson sem geta skorað mörk. Hver veit nema Óskar Örn Hauksson poppi líka upp? Blikar eru með skemmtilega möguleika í sínum sóknarleik en Víkingar eru með betri vopn í vopnabúrinu.

Lykilmenn leiksins:
Höskuldur er alltaf í gír, en Ísak Snær þarf að vera á deginum sínum. Það verður virkilega skemmtilegt að fylgjast með baráttu Ísaks við Gunnar Vatnhamar og það gæti klárlega orðið lykilbarátta leiksins. Íslandsmeistaratitillinn er undir og það gæti verið svolítið mikið undir þeim komið hvar titillinn endar.

Þjálfararnir:
Víkingar eru með mann sem hefur unnið allt sem hægt er að vinna á Íslandi við stjórnvölinn: Arnar Gunnlaugsson. Hann veit hvernig á að vinna svona leiki. Hann er í banni í þessum leik og þarf að sitja upp í stúku en Víkingar eru með reynslu af því. Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, hefur gert frábæra hluti á sínu fyrsta tímabili sínu sem aðalþjálfari í Kópavogi. Hann hefur klárlega framtíðina fyrir sér en það væri risastórt ef hann myndi ná að fara með titilinn heim í Kópavog. Á þessum tímapunkti er Arnar með yfirhöndina á Halldór, en við sjáum hvað gerist í leiknum á sunnudag.
Athugasemdir
banner
banner
banner