Vitað er að Everton fékk Carlos Alcaraz á lánssamningi í vetur með árangurstengdri kaupskyldu.
Ekki hefur verið greint nánar frá þessum samningslið en fótboltafréttamaðurinn Fabrizio Romano heldur því fram að nú þurfi Alcaraz að spila fimm leiki í viðbót fyrir Everton til að virkja kaupskylduna.
Everton mun þá borga 18 milljónir evra í kaupverð, en Alcaraz er samningsbundinn brasilíska félaginu Flamengo sem keypti hann frá Southampton fyrir 18 milljónir evra síðasta sumar, sem er metfé fyrir félagið.
Alcaraz er 22 ára gamall Argentínumaður, með tvo leiki að baki fyrir U23 landsliðið. Hann er uppalinn hjá Racing Club í heimalandinu og skoraði 8 mörk í 48 leikjum með Southampton.
Alcaraz skoraði og lagði upp í 1-2 sigri Everton gegn Crystal Palace og hefur komið við sögu í öllum sjö leikjum liðsins frá komu sinni úr röðum Flamengo í febrúar.
Alcaraz lék einnig á láni hjá Juventus áður en hann var keyptur til Flamengo í fyrra.
Athugasemdir