Man Utd vill Ait-Nouri og hefur líka áhuga á Nkunku - Fulham og Leicester vilja fá Ferguson lánaðan - Dyche með fullan stuðning
   þri 26. nóvember 2024 08:46
Elvar Geir Magnússon
Mun KSÍ setja sig í samband við Víking í vikulok?
Icelandair
Arnar Gunnlaugsson.
Arnar Gunnlaugsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Freyr Alexandersson.
Freyr Alexandersson.
Mynd: Getty Images
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net búast Víkingar fastlega við því að KSÍ muni óska eftir því að fá að ræða við Arnar Gunnlaugsson, þjálfara liðsins, um landsliðsþjálfarastarfið.

Víkingur er að fara að keppa gegn FC Noah í Armeníu í Sambandsdeildinni á fimmtudaginn og gæti KSÍ beðið með það þar til eftir þann leik að biðja um leyfi til að ræða við Arnar.

Efst í huga að ráða Íslending
Eftir að tilkynnt var að Age Hareide væri hættur sem landsliðsþjálfari sagði Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ, að efst á blaði væri að ráða íslenskan þjálfara en það þurfi þóað horfa á heildarmyndina.

„Við eigum marga frambærilega íslenska þjálfara í dag og það er alltaf horft til þess, fyrst og fremst," sagði Þorvaldur við Vísi.

Vilja líklega ræða við Arnar og Frey
Þeir Arnar og Freyr Alexandersson, þjálfari Kortrijk, eru taldir langlíklegastir þegar horft er til næsta landsliðsþjálfara og eru augljósustu kostirnir. Arnar hefur sagt það heiður að vera orðaður við starfið og Freyr sagði nýlega að hann myndi ræða við KSÍ ef óskað yrði eftir því. Líklegt er að KSÍ muni vilja ræða við þá báða.

Sögusagnir fóru í gang fyrr í þessum mánuði um að KSÍ hefði þegar rætt við Arnar en enginn fótur reyndist fyrir þeim slúðursögum.

„Þorvaldur Örlygsson hafði samband við mig og sagði að ekkert samtal hafði átt sér stað við Arnar og yrði ekki gert nema með samráði við klúbbinn," sagði Heimir Gunnlaugsson, formaður fótboltadeildar Víkings, fyrir viku síðan.

Fyrsta verkefni nýs landsliðsþjálfara, hver sem það verður, er umspilið í mars þar sem Ísland mætir Kósovó í tveimur leikjum um að spila áfram í B-deild Þjóðadeildarinnar. Liðið sem tapar verður í C-deildinni.
Athugasemdir
banner