Helgi Sigurðsson, þjálfari Grindavíkur, ræddi við Fótbolta.net í gær eftir að dregið var í Mjólkurbikarnum. Hann var spurður út í nýjasta liðsstyrkinn sem félagið tilkynnti um liðna helgi. Þá var tilkynnt um komu tveggja leikmanna; Dagur Örn Fjeldsted kom á láni frá Breiðabliki og Króatinn Edi Horvat kom frá Slóveníu.
Horvat er 24 ára og Dagur verður átján ára á morgun. Báðir eru þeir sóknarmenn.
Horvat er 24 ára og Dagur verður átján ára á morgun. Báðir eru þeir sóknarmenn.
„Edi er senter sem er með fína reynslu, er á góðum aldri og mikið af mörkum í honum. Hann er búinn að æfa með okkur í viku og hefur staðið sig mjög vel. Hann spilar sinn fyrsta leik á föstudaginn þegar við tökum okkar síðasta æfingaleik fyrir mót. Við væntum til mikils af honum sem og öllum öðrum leikmönnum liðsins," sagði Helgi.
„Hugsunin með Dag er að fá inn mann sem bæði er ungur að árum og ætlar sér eitthvað í fótbolta - hefur mikinn metnað. Þetta er leikmaður sem getur og þorir að fara einn á einn og brjóta upp leikina. Hann hefur þá hæfileika og það er það sem við erum að sækjast eftir." Dagur lék með Breiðabliki á undirbúningstímabilinu og skoraði m.a. í Bose mótinu og í æfingaleik gegn Stjörnunni. Hann var á sínum tíma valin í úrtakshóp U16 og var í febrúar í æfingahópi U18.
Lengjudeildin hefst eftir rúma viku og er Grindvíkingum spáð góðu gengi í sumar.
„Mér líst mjög vel á þetta, það styttist í Lengjudeildina, ekki nema níu dagar í hana. Þetta er búið að vera mjög athyglisvert undirbúningstímabil, það var erfitt í janúar og febrúar, en þegar liðið fór að smella saman þá hefur þetta gengið mjög vel að undanförnu."
„Við teljum okkur vera klára í bátana og ætlum að reyna njóta þess að spila saman sem lið í sumar og ætlum okkur stóra hluti," sagði Helgi.
Athugasemdir