Hinn 16 ára gamli Daníel Ingi Jóhannesson spilaði sinn fyrsta leik í byrjunarliði fyrir ÍA í gær þegar liðið vann 3-2 sigur á Leikni í Lengjudeildinni.
Jón Þór Hauksson þjálfari ÍA var gríðarlega ánægður með frammistöðu hans á undirbúningstímabilinu og gaf honum séns í byrjunarliðinu.
„Daníel Ingi er frábær leikmaður og var á köflum í vetur okkar besti leikmaður. Hann hefur átt frábært undirbúningstímabil og það hefur verið algjörlega frábært að fylgjast með honum þroskast og þróast," sagði Jón Þór eftir sigurinn í gær.
Daníel sem er sonur Jóhannesar Karls Guðjónssonar aðstoðarlandsliðsþjálfara og bróðir Ísaks Bergmanns landsliðsmanns er á leið til Nordsjælland í Danmörku. Jón Þór fagnar því.
„Það er gleðiefni fyrir okkur. Það er frábært þegar ungir leikmenn stíga skrefið út í atvinnumennsku. Hann er að fara á frábæran stað, virkilega spennandi verkefni, áhugaverður klúbbur og það verður frábært að halda áfram að fylgjast með hans þróun. Hann hefur tekið risastórt stökk í vetur. Það hefur verið frábært að vinna með og fylgjast með þeim skrefum," sagði Jón Þór.
„Það verður spennandi að fylgjast með honum þegar hann er farinn út en hann er ekki farinn og hann nýtist okkur vel þangað til."
Daníel Ingi ræddi við Fótbolta.net eftir leikinn um Nordsjælland sem má sjá hér.