Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, er sagður mjög spenntur fyrir þeirri tilhugsun að fara í þjálfun erlendis á þessum tímapunkti. Hann hefur verið sterklega orðaður við Norrköping í Svíþjóð að undanförnu.
Arnar kláraði í síðasta mánuði sitt fimmta tímabil sem þjálfari Víkings og hefur hann náð stórkostlegum árangri með liðið á sínum tíma þar. Alls eru titlarnir sex: tveir Íslandsmeistaratitlar og fjórir bikarmeistaratitlar.
„Hann er í viðræðum við Norrköping. Við vitum ekki hversu margir eru á blaði hjá þeim en ég veit að Arnar er mjög ofarlega á blaði hjá Norrköping. Þeir fengu leyfi til að ræða við hann og ég held að hann hafi hitt þá einhvern tímann í þessari viku. Ég heyrði að Arnar væri sjálfur ákafur í því að reyna að komast í starf erlendis núna," sagði Elvar Geir.
„Norrköping er hörkuflottur klúbbur og Íslendingar eru í góðum metum þarna," bætti Elvar við.
„Það er búið að vera bras á klúbbnum undanfarið og þetta er góður tímapunktur að stíga inn í. Þetta er mjög flott félag sem vill ýta ungum leikmönnum inn," sagði Tómas Þór Þórðarson í þættinum.
Arnór Ingvi Traustason og Ísak Andri Sigurgeirsson eru á meðal leikmanna félagsins og þá er Andri Lucas Guðjohnsen einnig samningsbundinn en hann er núna á láni hjá Lyngby í Danmörku.
Tómas sagði jafnframt frá því í þættinum að hann hefði heyrt að Arnar væri kominn á blað hjá Hammarby sem er einnig í sænsku úrvalsdeildinni. Hammarby er í leit að þjálfara eftir að Spánverjinn Martín Cifuentes fór frá félaginu til að taka við QPR á Englandi.
„Það er held ég félag sem passar enn betur fyrir hann. Það er félag með mikið hjarta, risastóran aðdáaendahóp sem vinnur eiginlega ekki neitt. Það er Víkingskeimur af því, lið sem vann ekki mikið áður en Arnar mætti. Það er líka gervigraslið, sem hentar Arnari mjög vel. Þetta eru tvö félag sem henta honum mjög vel," sagði Tómas.
Wikipedia-síðan hjá Arnari ætti svo sannarlega að heilla félög erlendis en hann hefur náð frábærum árangri, bæði sem leikmaður og sem þjálfari.
„Það verður mjög breytt landsslag í Bestu deildinni ef bæði Arnar og Óskar verða horfnir á braut," sagði Elvar en Óskar Hrafn Þorvaldsson yfirgaf Breiðablik fyrir stuttu og tók við Haugesund í Noregi.
Athugasemdir