Mainoo að fá nýjan samning - Tekur Guardiola við enska landsliðinu - Eriksen fer til Ajax
banner
   sun 29. september 2024 17:29
Brynjar Ingi Erluson
England: Þriggja marka sigur Tottenham á Old Trafford
Tottenham vann frábæran sigur á Old Trafford
Tottenham vann frábæran sigur á Old Trafford
Mynd: Getty Images
United-mennirnir horfðu bara hver á annan
United-mennirnir horfðu bara hver á annan
Mynd: Getty Images
Manchester Utd 0 - 3 Tottenham
0-1 Brennan Johnson ('3 )
0-2 Dejan Kulusevski ('47 )
0-3 Dominic Solanke ('78 )
Rautt spjald: Bruno Fernandes, Manchester Utd ('42)

Tottenham Hotspur vann Manchester United, 3-0, í 6. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Old Trafford í kvöld. United lék manni færri allan síðari hálfleikinn eftir að Bruno Fernandes fékk að líta rauða spjaldið.

Lundúnaliðið hefur verið á ágætis róli og unnið síðustu þrjá leiki í öllum keppnum á meðan United hafði aðeins unnið einn af síðustu þremur leikjum sínum.

Brennan Johnson, sem mátti þola mikla gagnrýni frá stuðningsmönnum Tottenham fyrir spilamennsku sína, hefur verið sjóðandi heitur og tókst að skora fjórða leikinn í röð og það eftir aðeins tæpar þrjár mínútur.

Hollenski miðvörðurinn Micky van den Ven fékk hlaupabraut vinstra megin á vellinum, hljóp óáreittur inn í teiginn og sendi boltann fyrir markið á Johnson sem gat ekki annað en sett boltann í netið.

Johnson var ekki langt frá því að tvöfalda forystuna á 21. mínútu eftir góða sókn gestanna en tilraun hans hafnaði í stöng.

United-liðið var út um allt í fyrri hálfleiknum og náði að skapa sér lítið, en besta færi þeirra kom í lok fyrri hálfleiks er Alejandro Garnacho setti boltann í tréverkið.

Á 42. mínútu varð United fyrir mikilli blóðtöku er fyrirliðinn Bruno Fernandes fékk að líta rauða spjaldið fyrir að fara með hælinn í hné James Maddison. Af endursýningu að dæma virtist rauða spjaldið fremur grimm ákvörðun, en Fernandes rann til er hann ætlaði í Maddison.

Stuttu síðar fór Kobbie Mainoo, einn af lykilmönnum United, af velli vegna meiðsla.

Snemma í síðari hálfleiknum kom annað mark Tottenham en það gerði Dejan Kulusevski eftir sendingu Johnson. Arfaslakur varnarleikur hjá United í markinu og Lisandro Martínez með glórulausa og slaka tæklingu sem leiddi til þess að Johnson fékk að hlaupa upp allan hægri vænginn.

Tottenham fékk nokkur fín færi til að bæta við forystuna en fór illa með góð færi.

United fór að henda fleiri mönnum fram í von um að opna leikinn aðeins, en þegar tólf mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma kom þriðja markið sem gerði endanlega út um leikinn.

Lucas Bergvall tók hornspyrnu sem Pape Matar Sarr stangaði fyrir markið og á Dominic Solanke sem potaði boltanum í netið af stuttu færi.

Sannfærandi og sanngjarn sigur Tottenham staðreynd. Tottenham er nú með tíu stig í 8. sæti en United fer niður í 12. sæti með aðeins 7 stig eftir sex umferðir.
Athugasemdir
banner
banner