Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   fim 30. janúar 2014 17:00
Tryggvi Páll Tryggvason
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Tvíburarnir
Birt með leyfi raududjoflarnir.is
Tryggvi Páll Tryggvason
Tryggvi Páll Tryggvason
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Twitter
Mynd: Getty Images
Maðurinn hefur lengi spurt sig þeirrar spurningar hvernig samspil erfða og umhverfis hefur áhrif á líf manna. Fyrst um sinn glímdu heimspekingar við þessa spurningu. John Locke taldi umhverfi skipta meginmáli, við fæðingu var heilinn óskrifað blað en Immanuel Kant taldi að við fæðingu hefði maðurinn einhverja fyrirframgefna þekkingu.

Síðar meir, líkt og með mörg önnur viðfangsefni heimspekinnar, færðist þessi spurning
yfir á svið vísindanna. Í dag glíma erfðafræðingar, sálfræðingar og læknar öðrum fremur við þessa spurningu.

Til þess að finna svar við þessari spurningu hafa eineggja tvíburar reynst eftirsóknarvert rannsóknarefni. Erfðafræðilega eru þeir nánast samskonar en þeir alast ekki alltaf upp í sama umhverfi og á því hafa rannsakendur sérstakan áhuga því þá gefst kjörið tækifæri til að sjá hvernig erfðir og umhverfið spila saman.

Afhverju er ég að bulla eitthvað um heimspeki, erfðafræði og tvíburarannsóknir á vefsíðu um knattspyrnulið á Englandi? Aðallega vegna þess að ég lærði heimspeki í háskóla og á ennþá eftir að finna hagnýta leið til þess að nýta mér þá þekkingu.

Einnig þó vegna þess að hjá Manchester United mátti þangað til nýlega finna eineggja tvíbura og báðir voru taldir eiga bjarta framtíð fyrir sér hjá félaginu þegar þeir gengu til liðsins. Tveir leikmenn, eineggja tvíburar, erfðafræðilega samstæðir í nákvæmlega sama umhverfi, svo líkir að Sir Alex Ferguson þekkti þá lengi vel aðeins í sundur á því að Fabio gekk með giftingarhring. Samt sem áður er annar þeirra búinn að vera byrjunarliðsmaður í nokkur ár á meðan hinn náði aldrei að festa sig í sessi. Fabio er farinn, Rafael varð eftir. Hvernig stendur á þessu?

Nú hljóta erfðafræðingar heimsins að vera með vatn í munninum. Eða ekki.

Það er margt sem týnist og gleymist á netinu í þessu upplýsingaflæði sem dynur á mann á hverjum degi en ég man eftir umræðu um þá bræður fljótlega eftir að þeir gengu til liðsins að litið væri á Fabio sem betri leikmanninn af þeim tveimur. Þegar þeir gengu til liðs við Fluminese árið 2005 var Fabio varnarmiðjumaður en Rafael var framherji. Þjálfarinn þeirra sá þá þó frekar fyrir sér sem bakverði. Báðir eru þeir réttfættir sem hefur væntanlega skapað einhver vandræði enda fá lið sem spila með tvo bakverði hægra megin. Eða vinstra megin ef út í það er farið. Lausnin var sú að Fabio færði sig í vinstri bakvörðinn, einfaldlega vegna þess að hann stóð sig svo vel þar þegar hann var prófaður í þeirri stöðu. Rafael fékk hægri bakvörðinn.

Þegar þeir komu til United beið þeirra þó ólíkt hlutskipti. Rafael var að keppa við Gary Neville og Wes Brown, Fabio við Patrice Evra. Neville og Brown voru oft á tíðum meiddir auk þess sem að Neville var óðum að verða of gamall til að standa í eltingarleik upp og niður kantinn. Leiðin var því tiltölulega greið fyrir Rafael inní í byrjunarliðið og honum til tekna nýtti hann þau tækifæri sem hann fékk gríðarlega vel. Hann spilaði alls 28 leiki á fyrsta tímabilinu og leit aldrei aftur um öxl. Wes Brown var seldur, Gary Neville hætti og Rafael var hægri bakvörður nr.1 hjá United og fékk gamla treyjunúmerið hans Gary Neville því til staðfestingar.

Á sama tíma og meðvindurinn lék um Rafael blés allt í fangið á Fabio. Hann meiddist skömmu eftir komuna til United og spilaði ekki sinn fyrsta leik fyrr en um ári eftir að hann gekk í raðir United og meiddist meira að segja í þeim leik, bikarleik gegn Tottenham. Hann fékk ekki tækifæri til að spila í deildinni fyrr en rúmlega einu og hálfu ári eftir að hann gekk til liðs við United, í águst 2009 en Rafael hafði fengið sitt tækifæri í sama mánuði, ári fyrr. Eftir þetta voru tækifærin af skornum skammti fyrir Fabio, ekki endilega vegna skorts á hæfileikum eða vinnuframlagi. Ólíkt Rafael var Fabio að keppa við Patrice Evra sem spilaði svo gott sem hvern einasta leik. Það var því nánast ómögulegt fyrir Fabio að brjóta sér leið inn í byrjunarliðið í sinni stöðu. Það fór svo að á endanum var hann farinn að keppa við Rafael um hægri bakvörðinn. Það segir kannski ýmislegt að Fabio var valinn í byrjunarliðið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2011. Hvar spilaði hann? Í hægri bakverðinum, tvíburabróðir hans sat í áhorfendastúkunni.

Það entist þó ekki lengi og Fabio fór aftur að keppa við Evra um vinstri bakvörðinn. Hann fékk lítið að spila og var á endanum lánaður til QPR sem var í bullandi fallbaráttu. Það gekk ekki upp og hann hefur fengið örfá tækifæri hjá David Moyes og hefur nú gengið til liðs við Cardiff á meðan Rafael þýtur upp og niður hægri vænginn á Old Trafford.

ManUnitedYouth er twitter-síða stuðningsmanns United sem fylgist grannt með gangi mála hjá varaliðinu og yngri liðunum. Hann hafði þetta að segja um brottför Fabio (sjá til hliðar)

Það er nokkuð til í þessu. Báðir leikmenn voru álíka góðir þegar gengu til liðs við félagið, báðir leikmenn æfðu við nákvæmlega sömu aðstæður og hafa meira segja örugglega borðað sama mat því að þeir bjuggu saman um hríð. Hvað skilur á milli feigs og ófeigs í þessu máli?

Aðstæður. Umhverfi.

Rafael fékk tækifæri og nýtti það vel. Í hans stöðu voru leikmenn fyrir sem voru mikið meiddir eða komnir á síðasta spölinn. Hann greip gæsina og er bakvörður nr.1 í dag.

Fabio var mikið meiddur og þegar hann kom úr meiðslum þurfti hann að keppa við einn besta vinstri bakvörð í heimi sem missti helst ekki úr leik.

Þessi litla tvíburarannsókn sem við höfum fengið í hendurnar með því að skoða ferla þeirra bræðra varpar ljósi á hversu mikið ytri aðstæður og þættir sem erfitt er að hafa stjórn á hafa áhrif þróun ungra leikmanna. Í fótboltanum, sem og á öðrum sviðum lífsins, er stundum hreinlega ekki nóg að vera hæfileikaríkur, stundum er jafnvel ekki nóg að vinna hörðum höndum og leggja sig allan fram til að ná því sem þú vilt. Það skemmir auðvitað ekki fyrir en stundum verða hlutirnir bara að falla með þér. Það þarf einhver að gefa þér tækifæri og þú þarft að nýta það tækifæri. Meiðsli annara leikmanna geta fært þér sénsinn eins og í tilfelli Rafael eða öfugt, eins og í tilfelli Fabio. Svo margir litlir hlutir geta skipt sköpum þegar kemur að þróun ungra leikmanna.

Hversu margir leikmenn sem mögulega hefðu orðið stórstjörnur eru núna að spila í neðri deildum eða að selja ryksugur vegna þess að þeir fengu aldrei tækifærið eða nýttu það ekki nógu vel? Hvernig hefði ferill margra leikmanna þróast ef fyrsta skotið þeirra hefði farið stönginn inn, en ekki stönginn út? Eða öfugt. Danny Welbeck er byrjunarliðsmaður í enska landsliðinu í dag, hann skoraði í sínum fyrsta úrvalsdeildarleik með United. Frazier Campbell fékk dauðafæri í leik gegn Newcastle í ágúst 2008 til að tryggja United sigurinn. Hann skoraði ekki. Hann fór skömmu seinna frá félaginu. Hvað hefði gerst ef hann hefði skorað úr þessu færi? Það er auðvitað ómögulegt að segja en varpar ákveðnu ljósi á hlutina.

Það er svo margt sem veltur einfaldlega á aðstæðum og umhverfi og það sést hvergi betur en þegar maður horfir á feril þessara tvíburabræða frá Brasilíu.
Athugasemdir
banner
banner
banner