Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   þri 30. mars 2021 10:16
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Györ, Ungverjaland
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Súrt í séns
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Icelandair
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Mynd: Getty Images
Staðfest var í gær að íslenska U21 árs landsliðið yrði án fimm leikmanna gegn Frökkum. Fjórir þeirra höfðu spilað báða leikina, þrír af þeim í byrjunarliði. Sá fimmti, Ísak Óli Ólafsson, kom inn gegn Dönum og sýndi fína frammistöðu. Hann meiddist í leiknum og er frá.

Hinir fjórir voru kallaðir upp í A-landsliðið fyrir leik gegn Liechtenstein sem verður að vinnast. A-liðið er án stiga eftir tvo leiki í undankeppni fyrir HM 2022.

Það er súrt að sjá á eftir þessum leikmönnum þar sem íslenska U21 á möguleika á að komast á næsta skref. Kraftaverk hafa alveg gerst inn á fótboltavelli. Möguleiki Ísland felst í því að vinna Frakkland og treysta á að Danir sigri Rússa á sama tíma.

Þá fara innbyrðis viðureignir Frakklands, Íslands og Rússlands að telja. Fyrir leikinn á morgun eru Frakkar með plús tvö mörk (+2) í markatölu, Rússar með plús eitt mark (+1) og Ísland með mínus þrjú mörk (-3). Samkvæmt mínum útreikningum þyrfti íslenska liðið því að vinna fjögurra marka sigur til þess að fara áfram. Innbyrðis markatala Rússa mun ekki breytast og fjögurra marka sigur jafnar okkur við Rússana, færir okkur upp fyrir þá á skoruðum mörkum, og skýtur okkur upp fyrir Frakkana.

Það þarf ekkert að tala í kringum það að fyrir fram er Frakkland talsvert sigurstranglegra liðið og að Ísland vinni með fjórum mörkum eru viltustu draumar. En miði er alltaf möguleiki. Líkurnar jukust ekki þegar fjórir lykilmenn liðsins voru kallaðir upp í A-liðið.

Auðvitað er A-liðið stóra markmiðið og einbeitingin á að vera á því að komast á HM 2022. Vona ég mikið að þessir fjórir leikmenn fái sénsinn og hjálpi Íslandi að vinna Liechtenstein. Væri slæmt ef þeir væru kallaðir upp einungis til þess að sitja á bekknum.

Staðan er engin kjörstaða fyrir Davíð Snorra Jónasson, þjálfara U21, því eftir standa fimmtán útileikmenn sem eru klárir í leikinn gegn Frökkum. Tíu þeirra byrja og fimm mega koma inn á.

Davíð hefur verið spurður út í þessa stöðu og svarar á þjálfaralegan hátt, ánægður með að leikmenn fái kallið frá A-liðinu og hann vissi að þessi staða gæti komið upp.

„Auðvitað er alltaf eftirsjá í góðum leikmönnum en við erum með góða leikmenn á staðnum ennþá, við vissum að þetta gæti komið upp og ég óska strákunum alls hins besta," sagði Davíð í gærkvöldi.

Leikir morgundagsins:
U21:
16:00 Danmörk U-21 - Rússland U-21
16:00 Ísland U-21 - Frakkland U-21

A-liðið
Riðill J í undankeppni HM
16:00 Armenia - Rúmenía
18:45 Þýskaland - Norður Makedónía
18:45 Liechtenstein - Ísland
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner