Topplið ensku B-deildarinnar, Leicester City, hefur áhuga á að fá íslenska landsliðsmanninn Arnór Sigurðsson í sínar raðir, en þetta herma heimildir Fótbolta.net.
Skagamaðurinn er á láni hjá Blackburn Rovers frá rússneska félaginu CSKA Moskvu, en hann nýtti sér úrræði alþjóðafótboltasambandsins, FIFA, í annað sinn vegna innrásar Rússa inn í Úkraínu.
Arnór, sem er 24 ára gamall, hefur farið vel af stað með Blackburn og skorað fjögur mörk í fyrstu átta leikjum sínum í deild- og bikar, en hann er þegar farinn að vekja áhuga stærri félaga.
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net hefur Leicester City, sem er í efsta sæti B-deildarinnar, áhuga á að fá Arnór, sem verður samningslaus á næsta ári.
Arnór má byrja að ræða við önnur félög um áramótin, en það er ekki í myndinni að snúa aftur til CSKA.
Leicester stefnir hraðbyr aftur upp í ensku úrvalsdeildina, en liðið hefur unnið níu deildarleiki í röð og er að slá hvert metið á fætur öðru undir stjórn ítalska stjórans Enzo Maresca.
Arnór er kantmaður sem getur einnig leikið fremstur á miðju. Á síðasta ári spilaði hann á láni hjá Norrköping í Svíþjóð og var hann einn allra besti leikmaður úrvalsdeildarinnar.
Athugasemdir