Kári Árnason miðvörður íslenska landsliðsins hóf upphitun með liðinu á æfingu á Laugardalsvelli í morgun en hætti fljótlega.
Hann ræddi við Friðrik Ellert Jónsson sjúkraþjálfara og virtist kvarta undan meiðslum í nára.
Saman yfirgáfu þeir svo völlinn. Arnar Þór Viðarsson landliðsþjálfari var spurður út í málið á fréttamannafundi í dag.
„Þetta var ákveðið fyrir æfinguna í dag að hann myndi ekki æfa fulla æfingu," sagði Arnar spurður út í stöðuna á Kára í ljósi þess að hann yfirgaf æfinguna.
„Kári er næstum því jafngamall og ég. Hann er samt á réttri leið fyrir leikinn á fimmtudaginn miðað við hvað við bjuggumst við að hann væri," hélt Arnar áfram.
„Þegar við erum að tala um lappir og þessa þrjá leiki framundan þá er Kári efstut á blaði yfir þá leikmenn sem þurfa mikið viðhald. Við þurfum að ná honum góðum fyrir leikina líka og hann gerir það hjá Víkingum líka."
„Ég er búinn að sjá marga leiki með Víkingi í sumar og hann hefur ekki stigið mörg feilspor. Við spilum þetta nákvæmlega eftir hans höfði ef ég má orða það þannig."
Arnar bætti svo við að Kári væri ekki meiddur heldur væri hann að jafna sig eftir síðasta leik.
Hann sagði að Guðlaugur Victor hafi verið tæpur eftir leik helgarinnar með Schalke en hafi verið meira með á æfingunni í dag en búist var við. Þetta væru þeir tveir einu sem er eitthvað með.
Athugasemdir