Nú er Íslandsmótið í knattspyrnu komið á fullan skrið með öllu sem því fylgir. Ungstirni á egótryppi, spár í uppnámi, fótboltaþættir, dómaramistök, gulir vellir og mótvindur á bæði lið.
Viðtöl eftir leiki finnast mér stórkostleg. Þar segja þjálfarar sömu hluti og þeir hafa sagt sl. ár og gætu þættir eins og Íslenski boltinn og Pepsi-mörkin þess vegna farið í myndbandasafnið og spilað gamlar klippur.
„Völlurinn bauð ekki upp á góða knattspyrnu og þurftum við því að berjast. Það skóp þennan sigur.”
„Þeir vildu þetta bara meira en við.”
„Að skora svona á síðustu mínútu, það eru alltaf sætustu sigrarnir.”
„Við vorum bara drullu lélegir. Ekkert spil og gátum ekkert!”
„Við vorum kannski slakir, en það var einn maður á vellinum sem mætti alls ekki til leiks. Það var dómarinn.”
Síðan eru það tískuorðin. Holning tröllreið íslensku fótboltamáli hér fyrir skemmstu og var leikur liða ekki rýndur öðruvísi en talað yrði um holningu. Elja er núna að koma sterkt inn á markað og spái ég því að orðinu muni vaxa fiskur um hrygg. Gamli góði vítateigurinn hefur munað sinn fífil fegurri, því þú ert varla sparkspekingur í dag nema tala um box, eða boxið (þótt það sé í raun allt önnur íþrótt).
Viðtöl við leikmenn eru fjölbreyttari en viðtöl við þjálfara. Það sannaði Atli Sigurjónsson, leikmaður Þórs, á dögunum. Oft á tíðum virðast knattspyrnuþjálfarar vera með bakgrunn í stjórnmálafræði. Svörin alþýðuleg og lélegt sjónvarpsefni. En síðan eru til þjálfarar eins og Heimir Þorsteinsson, þjálfari Fjarðabyggðar, sem allir vilja taka viðtal við.
Nokkur umræða hefur verið hvort knattspyrnuyfirvöld, t.d. á Englandi, séu að taka sálina út fótboltanum. Menn mega lítið segja og eru leikbönn refsing við tilfinningum.
Íslenski boltinn er þáttur sem Ríkissjónvarpið sýnir á mánudagskvöldum. Það finnast mér góðir þættir. Ég skil samt ekki af hverju spekingarnir horfa ekki fyrst á viðtöl eftir leiki áður en þeir fara að leikgreina þá. Það yrði markvissara. Einn spekinganna notar eitt orðatiltæki nokkrum sinnum í hverjum einasta þætti, að brenna af. Mjög gott íslenskt orðatiltæki. Hins vegar hefur þessi spekingur ekki hugmynd um hvað það þýðir og ég held að hann hafi aldei notað það rétt, en að brenna af merkir að hitta ekki á markið.
Gaman verður að fylgjast með fótboltamálinu í sumar. Spekingarnir á Rúv eiga vafalaust eftir að koma með tískuorð og svo heldur frasakeppnin áfram á Stöð2 Sport.