Eins og trúlega flestir horfði ég á úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Þar horfði ég á litla leikmenn með afburðar hæfileika og fótboltalegar gáfur leggja lið skipað stríðsmönnum sem allt vilja gera fyrir knattspyrnustjórann sinn. Nema náttúrulega Wayne Rooney - hann er bara gráðugur í sínum eigin heimi, en það er önnur saga.
Ég hef velt því fyrir mér hvernig þetta er á Íslandi. Ef Xavi og Darren Fletcher væru í öðrum flokki Fylkis í dag. Hvor myndi vera í liðinu? Iniesta vs Darren Gibson (ef við gefum okkur það að þeir séu jafnaldrar og í öðrum flokki Fylkis!)
Það virðist nefnilega vera þannig að íslenskir þjálfarar vilji ekki fótboltamenn í sín lið. Þeir vilja bara leikmenn sem hlaupa alveg ógeðslega mikið, tækla og öskra mikið í hornspyrnum. Litlir leikmenn sem hafa fótboltalegar gáfur eru bara skildir eftir af því að þeir eru ekki með geðveikt mikið af grasgrænku á stuttbuxunum sínum. Þannig miðjan í öðrum flokki Fylkis væri skipuð Fletcher og Gibson en ekki Xavi og Iniesta! Ef þeir væru Íslendingar myndu þeir svo hætta og snúa sér að einhverju öðru. Verða bankamenn eða eitthvað álíka!
Hversu margir fótboltamenn hafa hætt útaf því að þjálfarar völdu einhverja maraþonhlaupara í liðið. Baráttuhundarnir sem gera allt til að sparka í fótboltamennina út úr leiknum. Ég gerði það sjálfur þegar Kári Árna kom úr Víking í Val. Hann var ógeðslega góður - miklu betri en ég og þá þurfti ég bara að tækla´nn. Hann hætti í Val og fór aftur heim í Víking. Hann er atvinnumaður í dag en ég er bara feitur gaur sem reynir að klára stúdentspróf! Ég var samt alltaf í liðinu, ekki hann!
Flestir þjálfarar á Íslandi koma í viðtöl eftir leiki og tala um baráttuna, viljan og skapgerð. Að þetta þurfi að vera í sæti númer eitt - svo komi allt annað. Er ekki kominn tími að breyta þessu? Fá fótboltann númer eitt og svo allt hitt?
Barcelona spilar yfirleitt úr hornum enda flestir í liðinu aðeins 170 cm að hæð. Hér á Íslandi er það þannig að ef lið fær horn öskra menn í miklum kór. "Dekka þennann," "Passa nærsvæðið," og my personal favorite "PICKA UPP." Fyrirgjöf kemur og svo er það baráttan, viljinn og skapgerðin sem á að stanga boltann í netið. Enginn sérstök pæling á bak við þetta svo sem. Menn eiga bara að stanga þetta í netið af gömlum sið! Allavega gera heiðarlega tilraun til þess.
Ætli leynist ekki einhvers staðar Messi, Xavi, Iniesta eða Ronaldo hér í yngri flokkum á Íslandi. En þeir eiga bara ekki séns. Því Darren-arnir, Fletcher og Gibson eigna sér sviðið með öskrum, tæklingum og látum. Svo koma fótboltamennirnir í meistaraflokk og þar er það eins.
Maraþonmennirnir eiga sviðið - ekki fótboltamennirnir!