Man Utd vill Ait-Nouri og hefur líka áhuga á Nkunku - Fulham og Leicester vilja fá Ferguson lánaðan - Dyche með fullan stuðning
   fös 10. júní 2011 11:00
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Hvers má vænta af vormönnum?
Elvar Geir Magnússon skrifar frá Danmörku
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Eftir að hafa horft á á fótboltaleik á Suðurnesjum í hávaðaroki og nístingskulda í gærkvöldi sit ég nú kófsveittur í lest á leið til Álaborgar. Næstu daga verður fylgst grannt með móti sem íslenskir fótboltaunnendur hafa beðið eftir með mikilli eftirvæntingu í nokkurn tíma.

Tilfinningin er ekki ósvipuð og fyrir stórmót í handbolta. Maður skynjar mikla bjartsýni hjá Íslendingum fyrir mótið. En er innistæða fyrir bjartsýni?

Það er eðlilegt að maður velti því fyrir sér hvaða væntingar og kröfur maður á að gera til U21-landsliðsins í fótbolta á Evrópumótinu sem hefst á morgun. Á kannski að feta í fótspor kvennalandsliðsins, stefna upp úr riðlinum en svo þegar það markmið hverfur úr sjónmáli impra á því að sigurinn sé í raun sá að vera með á svona stóru móti?

Styrkleiki liðsins er það mikill að það má gera kröfur á meira en að það mæti til leiks. Vissulega er það frábært afrek að vera ein af fáum þjóðum sem komast svona langt en maður vill alltaf meira. Þetta lið getur vel komist í undanúrslitin og þangað vonar maður að það fari.

Samsetning liðsins gefur líka ástæðu til bjartsýni. Styrkleikarnir liggja á svo mörgum sviðum. Í liðinu eru öflugir varnarmenn, frábær djúpur miðjumaður, leiðtoginn er á sínum stað, magnaður aukaspyrnusérfræðingur, liprir vængmenn og fæddur markaskorari. Í raun ótrúleg samsetning í einum árgangi frá lítilli þjóð.

Vissulega eru líka veikleikar og margir hafa áhyggjur af því að hluti hópsins hefur verið í djúpri lægð síðustu vikur og mánuði fyrir mót. Enginn efast þó um að getan sé til staðar og ef þetta Evrópumót er ekki rétti staðurinn til að rísa úr lægðinni og sýna sitt rétta andlit þá er sá staður einfaldlega ekki til.

Eins og maður þekkir úr handboltanum er þó stutt í vonbrigðin. Á móti sem þessu geta minnstu mistök reynst óhemju dýrkeypt og lítið má út af bregða. Hver leikur er nánast úrslitaleikur og það má vel titla leikinn á morgun gegn Hvíta-Rússlandi þannig. Brekkan verður ansi brött ef sá leikur tapast.

Hvíta-Rússland er það lið riðilsins sem langerfiðast er að finna upplýsingar um. 3-0 sigur á Ítalíu og sú staðreynd að liðið er komið til Danmerkur talar þó sínu máli og gæti það orðið þolinmæðisverk að brjóta liðið niður.

Veislan er að byrja, sumarkveðjur úr lestinni.
banner
banner
banner