Man Utd vill Ait-Nouri og hefur líka áhuga á Nkunku - Fulham og Leicester vilja fá Ferguson lánaðan - Dyche með fullan stuðning
   lau 25. júní 2011 10:00
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Litla gulrótin sem varð stjóri Chelsea
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Andre Villas-Boas var í vikunni ráðinn knattspyrnustjóri Chelsea aðeins 33 ára að aldri. Þessi athyglisverði maður var kallaður litla gulrótin þegar hann lék í utandeild Portúgals sem unglingur.

Ramaldense FC hét félagið sem hann lék með og er öll aðstaða og umgjörð þar langt frá því sem við eigum að venjast í ensku úrvalsdeildinni. Heimavöllur félagsins var tekinn af þeim vegna fjárhagsvandamála svo liðið neyðist til að leigja völl fyrir heimaleiki sína.

Félagsheimili Ramaldense er svo einfaldur bar þar sem fólkið í hverfinu safnast saman og fær sér bjór meðan það ræðir fótbolta.

,,Við erum mjög stoltir af Villas-Boas því hann man eftir okkur. Hann minntist á Ramaldense í viðtali í sjónvarpinu. Hann er alltaf velkominn aftur til okkar," segir Nelson Carvalho, einn af stjórnarmönnum portúgalska félagsins.

Villas-Boas var ekki merkilegur leikmaður og lét oft lítið fara fyrir sér á vellinum, hlédrægur og kurteis strákur sem spilaði í vörninni. Það sem gerði hann þó eftirminnilegan var rauða hárið. Litla gulrótin var viðurnefni sem hann fékk frá þjálfara sínum sem krakki, viðurnefnið var til gamans en var ekki meint í illu.

Aðrir urðu læknar og lögmenn
Menn vilja eðlilega bera saman Villas-Boas og Jose Mourinho enda komu þeir báðir til Chelsea frá Porto. Þeir eru þó gjörólíkar persónur. Mourinho kallaði sjálfan sig ,,hinn sérstaka" á fyrsta blaðamannafundi sínum hjá Chelsea en Villas-Boas er öllu jarðbundnari og talaði um að liðið snérist ekki um einn mann á sínum fyrsta fundi.

Villas-Boas kemur úr ríkri fjölskyldu og hafa flestir karlmenn í henni orðið að læknum eða lögmönnum. Hann sjálfur fór aðra leið og ákvað að læra um fótboltann. ,,Okkur finnst hann ekkert sérstakur," segir frændi hans, Beatrice Villas-Boas. ,,Þetta er bara mjög venjulegar maður sem var ekki betri en frændi sinn í fótbolta! En hann var réttur maður á réttum stað."

Andre Villas-Boas yfirgefur fullkomið fjölskyldulíf til að takast á við næstu áskorun í London. Hann hefur búið í Portúgal í fallegu húsi ásamt eiginkonu sinni og tveimur dætrum með tengdaforeldrana hinumegin við götuna og foreldra sína ekki langt frá.

Hverfið er mjög friðsælt fyrir utan það þegar mótmælendur létu til sín taka eftir að Villas-Boas sagði upp hjá Porto. Hann flúði þá með fjölskuylduna upp í sveit á meðan lögreglan og öryggisverður börðust gegn mótmælendum.

Sir Bobby Robson og Andre Villas-Boas
Þrátt fyrir ungan aldur er langt síðan Villas-Boas byrjaði að undirbúa sig undir enska boltann. Hann fór að kafa ofan í enska boltann sautján ára gamall. Hann talaði tungumálið vel og þegar Sir Bobby Robson tók við hjá Porto fóru hlutirnir að gerast. Villas-Boas gaf sig á tal við hann.

George Burley, fyrrum stjóri Ipswich, man enn þegar Villas-Boas var hjá honum í tvær vikur á Portman Road. ,,Ég hafði nýlega tekið við Ipswich og Sir Bobby Robson var nýráðinn þjálfari Porto. Ég fékk símtal frá honum þar sem hann spurði mig hvort það væri möguleiki að ég gæti tekið á móti ungum manni sem vildi læra um enska boltann," segir Burley.

,,Hann sagði að þessi maður talaði fullkomna ensku og vildi fylgjast með æfingum hjá okkur, skoða þjálfunaraðferðir og læra um leikkerfi og liðsáherslur. Þetta var óhefðbundin beiðni en ég spilaði fyrir Sir Bobby fyrstu 14 ár ferils míns svo ég sagði að sjálfsögðu að þetta væri ekkert mál."

,,Ég gerði mér ekki grein fyrir því hversu ungur hann væri fyrr en hann kom til Ipswich. Hann var líklega nýorðinn 17 ára en mjög áhugasamur og kurteis. Hann hlustaði vel á allt sem sagt var og var tilbúinn að læra. Hann spurði sífellt um hvað við værum að gera og af hverju. Framkoma hans var einstök og hann leit greinilega mjög upp til Sir Bobby. Sú reynsla og menntun sem hann hlaut svona snemma kom þessari velgengni af stað," segir Burley.

Ótrúleg velgengni á stuttum tíma
Villas-Boas og Sir Bobby Robson voru nágrannar meðan sá síðarnefndi bjó í Portúgal. Villas-Boas var kominn með UEFA-C réttindi aðeins sautján ára og 21 árs var hann kominn í þjálfarateymi Jose Mourinho hjá Porto. Hann fylgdi Mourinho svo til Chelsea og Inter.

Í upphafi tímabilsins 2009-10 sagði hann skilið við þjálfarateymi Mourinho til að gerast sjálfur aðalþjálfari. Hann var ráðinn til Academica de Coimbra í október 2009 þegar þáverandi þjálfari liðsins var rekinn. Liðið sat í botnsæti portúgölsku úrvalsdeildarinnar. Undir stjórn Villas-Boas hafnaði liðið í 11. sæti deildarinnar, hann hreinsaði andrúmsloftið í leikmannahópnum og notaði sálfræði óspart. Einnig komst liðið í undanúrslit deildabikarsins og var Villas-Boas farinn að vekja mikla athygli. Ekki síst fyrir jákvæðan sóknarleikstíl liðsins.

Sumarið 2010 var hann ráðinn til Porto þar sem árangurinn lét ekki á sér standa. Hann varð yngsti þjálfari frá upphafi til að stýra liði til sigurs í Evrópukeppni en liðið vann Evrópudeildina auk þess sem það bar sigur úr býtum í deildinni og bikarnum heima fyrir. Þá setti Villas-Boas ófá metin á þessu fyrsta... og kannski eina... tímabili sínu hjá Porto.

Sagan af litlu gulrótinni er bara rétt að byrja.

Heimildir: Guardian, The Sun, Goal.com, Wikipedia o.fl.

Fyrsta stóra viðtalið við Villas-Boas sem þjálfari Chelsea:

banner
banner
banner